135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

5. fsp.

[11:01]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er út af fyrir sig alltaf ánægjulegt þegar stjórnmálamenn, hvort sem þeir eru í stjórnarmeirihluta eða minni hluta, vilja gefa manni leiðsögn. Ég hlusta eðlilega alltaf af athygli á slíkar leiðbeiningar. Samningar ríkisins við starfsmenn sína er vandmeðfarinn málaflokkur ekki síður en það hlutverk sem aðilar vinnumarkaðarins hafa, hins almenna vinnumarkaðar, við að semja sín á milli.

Það hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar að láta almenna markaðinn vera leiðandi í launaþróun í landinu. Það þýðir hins vegar ekki að láta eigi jafnt yfir alla ganga. Það geta verið mismunandi áherslur og hlutur mismunandi hópa réttur í þetta skiptið eða annað skiptið. Það getur bæði átt við hinn almenna vinnumarkað og opinbera markaðinn. Við þurfum líka að hafa í huga þá stefnumörkun sem er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að horfa sérstaklega á stöðu launa svokallaðra kvennastétta og er sérstakt starf í gangi á vegum ríkisstjórnarinnar hvað það mál varðar.

Hins vegar er ekki hægt að líta svo á að sjónarmið menntamálaráðherrans séu sjónarmið ríkisstjórnarinnar varðandi kjarasamninga sem nú standa fyrir dyrum. Það er hlutverk fjármálaráðherrans að sinna því fyrir hönd (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar. Það verður gert á næstu mánuðum og reynt verður að hafa, frú forseti, sem mest (Forseti hringir.) samráð við alla viðkomandi aðila og í sem mestu samræmi við það sem gerist á hinum almenna vinnumarkaði.