135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

háhraðatengingar og starfsemi Fjarskiptasjóðs.

[11:17]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Sala og einkavæðing Símans með grunnneti fjarskipta í landinu innan borðs er tvímælalaust einhver byggðafjandsamlegasta aðgerð sem lengi, ef ekki frá upphafi, hefur verið ráðist í. Þetta var gert í andstöðu við yfirgnæfandi meirihlutavilja þjóðarinnar en samkvæmt rækilegum skoðanakönnunum voru yfir 60% landsmanna á móti því að Síminn hyrfi úr opinberri eigu. Það fer einstaklega vel á því að það séu framsóknarmenn sem nú taki upp umræður um ófremdarástandið því að það voru framsóknarmenn sem láku niður og gengu inn á stefnu Sjálfstæðisflokksins í að einkavæða þennan málaflokk.

Á forsíðu Fréttablaðsins 29. ágúst 2004 var fyrirsögn: Ekki stendur á Framsókn að selja. Og hvað var það sem stóð ekki á Framsókn að selja? Það var Símann með grunnneti fjarskipta innan borðs, þvert á þá stefnu sem Framsókn hafði boðað fyrir alþingiskosningarnar 2003, að ekki skyldi selja grunnnetið.

Laugardaginn 1. apríl 2005 var forsíða Morgunblaðsins: Halldór og Davíð hafa náð samkomulagi um sölu Símans. Það eru að verða þrjú ár síðan, það er nú allur háhraðinn, hæstv. samgönguráðherra, sem þetta er á. Veruleikinn er sá að þetta hefur dregist og dregist og peningar legið vaxtalausir og ónotaðir inni á bók og það hefur ekki verið neinn sérstakur myndarbragur á því hvernig núverandi samgönguráðherra hefur tekið á málum frekar en aðrir. Það er að dragast upp óskapnaður hvað varðar skipulagið í þessum efnum sem helst væri hægt að líkja við það að þjóðvegakerfið væri bútað niður og mismunandi kaflar reknir af einkaaðilum með misgóðri þjónustu og færir af og til. Það er ekki nóg að það eigi að heita svo að boðið sé upp á einhverja háhraðaþjónustu ef hún dettur út annan hvorn dag og er gagnslaus kannski helminginn af tímanum eins og sums staðar er þar sem einkaaðilar eru af veikum burðum að reyna að sinna þessu.

Það þýðir ekkert annað en að horfast í augu við að þetta verklag gengur ekki, það verður að endurskoða vinnureglurnar og það verður með einhverjum hætti að vera hægt að tryggja öllum, ekki bara sumum, (Forseti hringir.) ekki bara þeim sem komast inn í útboðin, fullnægjandi (Forseti hringir.) þjónustu í þessum efnum. Það er of langt að bíða árum saman (Forseti hringir.) eins og framsóknarmenn leggja nú til.