135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

háhraðatengingar og starfsemi Fjarskiptasjóðs.

[11:19]
Hlusta

Herdís Þórðardóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt að því sé haldið vel til haga í þessari umræðu að uppbygging fjarskiptakerfa í sveitum landsins byggir á lögum um Fjarskiptasjóð sem samþykkt voru hér á hv. Alþingi fyrir rúmum tveimur árum og að frumkvæði þáverandi hæstv. samgönguráðherra, Sturlu Böðvarssonar. Hinar dreifðu byggðir, sveitir landsins falla að miklu leyti undir svæðið þar sem fjarskiptafyrirtæki hafa ekki treyst sér í uppbyggingu á markaðslegum forsendum. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að íslenskur landbúnaður hefur á síðustu árum tekið stór skref fram á við í tækniþróun og þessi gamalgróna atvinnugrein treystir í æ ríkari mæli á nútímaupplýsingatækni, til að mynda með tölvuvæddum mjaltakerfum. Traustar og góðar háhraðatengingar eru því bændum jafnmikilvægar og þeim sem búa í þéttbýli.

Markmiðið með Fjarskiptasjóðnum er að stuðla að aukinni samkeppni íslensks landbúnaðar með því að úthluta fjármagni til verkefna sem miða að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta í hinum dreifðu byggðum landsins. Fullyrða má að stofnun þessa sjóðs hafi verið mikið framfaramál fyrir bændur og aðra þá sem treysta á háhraðatengingar á svæðum þar sem fjarskiptafyrirtæki hafa ekki treyst sér í uppbyggingu á markaðslegum forsendum. Þess má geta hér að sjóðnum var ætlað til ráðstöfunar 2,5 milljarðar kr. af söluandvirði Símans. Á árinu 2006 var 1 milljarði kr. varið til uppbyggingar og síðan var gert ráð fyrir 500 millj. kr. í sjóðinn árlega á árunum 2007–2009.

Þessi mikla uppbygging fjarskiptakerfisins á landsbyggðinni mun taka tíma og á fundi með sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þingsins í þessari viku greindi formaður Bændasamtakanna frá því að tæplega helmingur bænda býr enn við gamaldagsnettengingar. Það er því afar brýnt (Forseti hringir.) að hæstv. samgönguráðherra fái stuðning (Forseti hringir.) til að halda því góða verki áfram sem hófst í tíð forvera hans.