135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

háhraðatengingar og starfsemi Fjarskiptasjóðs.

[11:22]
Hlusta

Hanna Birna Jóhannsdóttir (Fl):

Frú forseti. Á samdráttartímum í hefðbundnum atvinnugreinum svo sem sjávarútvegi og landbúnaði þar sem störfum hefur fækkað stórlega á undanförnum árum er mjög mikilvægt að allir landsmenn fái notið þeirra miklu möguleika sem háhraðatenging býður upp á.

Í mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi, eru aðstæður mjög mismunandi til að nýta sér tæknina. Í Vestmannaeyjum eru möguleikarnir mjög góðir en víða annars staðar í kjördæminu eru þeir mun lakari og á mörgum stöðum afleitir. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi háhraðatengingar í menntakerfinu og í dreifbýlinu geta slíkar tengingar skipt sköpum um möguleika fólks til fjarnáms á ýmsum sviðum. Sama er að segja um möguleikana til atvinnu og er nærtækast að minna á hugmyndir um störf án staðsetningar sem allir stjórnmálaflokkar hafa lýst stuðningi við, en það er forsenda þess að slíkar hugmyndir nái fram að ganga að þjóðbrautir tölvutækninnar séu greiðar.

Frú forseti. Að lokum vil ég minna á nauðsyn þess að bæta GSM-símasambandið en nú þegar NMT-kerfið verður tekið úr notkun í lok þessa árs, eins og boðað hefur verið, verður GSM-síminn eitt mikilvægasta öryggistæki okkar.