135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

háhraðatengingar og starfsemi Fjarskiptasjóðs.

[11:38]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka málshefjanda fyrir að taka upp þessa umræðu og þeim þingmönnum sem tóku þátt í henni. Hér hafa orðið ágæt skoðanaskipti um þetta mál.

Ég held að við séum öll sammála um það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði. Ófremdarástand hefur verið í háhraðatengingum í netnotkun á landsbyggðinni og það sem við samþykktum fyrir ansi mörgum árum um alþjónustu hvað varðar ISDN. Ég man enn hve við þingmenn vorum ánægðir með þá samþykkt en ég hygg að hæstv. forseti lýðveldisins hafi ekki verið búinn að skrifa undir það þegar við áttuðum okkur á að það sem við höfðum verið að samþykkja hvað varðar alþjónustu var nánast orðið úrelt þá þegar. Þess vegna er það sem Fjarskiptasjóður var settur á fót og þar hefur verið unnið eftir því prógrammi sem þar var sett upp og nú erum við að ná því fram að fá ADSL-þjónustu með tveggja megabæta lágmarkstíðni inn á útboði sem er, og ég ítreka það, að fara út á næstu dögum.

Ég fullyrði, virðulegi forseti, að á síðustu átta mánuðum hafi unnist mjög margir sigrar í þessu máli til útboðs og annað slíkt. Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni hvað það var sem tafði málið en ég sagði líka við umræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar fyrr í þessari viku að fátt væri svo með öllu illt að ei boðaði gott, ef til vill. Það getur verið að í útboðinu núna fáum við miklu betri tilboð, miklu betri tækni og miklu meiri hraða þó að þau ár sem þjónustan hefur verið svona léleg séu vissulega slæm.

Framsóknarmenn hafa talað um snigilshraða, t.d. hv. þm. Siv Friðleifsdóttir. Hún er sjálf í Sniglunum og þeir fara ekki hægt yfir. Frá því að Framsóknarflokkurinn fór úr ríkisstjórn hefur verið gefið í frá þeim snigilshraða sem núverandi formaður bráðabirgðastjórnar Framsóknarflokksins lýsti svo vel að hefði verið í landbúnaðarráðuneytinu, þar hafi svo margt gerst á snigilshraða.

Virðulegi forseti. Að þessu máli hefur verið unnið á háhraða á þessu ári. Um næstu áramót munu stórir sigrar hafa unnist.