135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

54. mál
[12:18]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Mér finnst þetta vera athyglisvert mál og ætla rétt aðeins að skoða það betur í ljósi þeirra athugasemda sem komu fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal. Það er tvennt sem kemur upp í hugann hjá mér. Það er annars vegar ákveðið prinsipp sem hér er um að ræða, að verið að draga frá kostnað við að afla tekna en hins vegar er verið að skilgreina hann með ákveðnum hætti. En eins og fram kom hjá hv. þm. Pétri Blöndal eru fleiri kostnaðarþættir, sem geta komið til vegna þess að fólk aflar sér tekna, mjög mismunandi eftir aðstæðum.

Ég velti því fyrir mér hvort það geti verið raunhæft að einhvers konar frádráttur væri vegna þess að menn hafi kostnað af því að afla sér tekna. Ég er kannski ekki sérstaklega að hugsa um bindiskostnað en það getur vel verið að það sé kostnaður sem sligar einhverja. Eins og menn vita getur þetta verið kostnaður af ýmsu tagi, ekki bara að þurfa að ferðast um langan veg. Innan höfuðborgarsvæðisins getur ferðakostnaður vegna vinnu meira að segja verið umtalsverður. Hitt sem hv. þingmaður fór yfir og lagði talsvert upp úr var að færðar væru sönnur á hver þessi kostnaður væri. Við þekkjum ýmis kerfi til þess. Það verður að segja eins og er þau eru öll frekar flókin og kalla á sérstakt framtal og sérstaka yfirferð. Ef við ætlum fólki á annað borð að telja fram einhverja hluti til að sýna fram á eitthvað, verðum við auðvitað að fara yfir þá líka til að ljóst sé að það sem ætlast er til af fólki sé gert og að ekki sé verið að svíkja. Þá velti ég fyrir mér hvaða augum hv. flutningsmaður mundi líta það ef við einfölduðum málið með einhverjum hætti og hefðum ákveðinn frádráttarlið sem væri vegna kostnaðar við að afla tekna, hver svo sem hann kynni að vera. Mér þætti athyglisvert að heyra sjónarmið hans hvað þetta varðar og jafnvel annarra hv. þingmanna sem taka þátt í umræðunni.