135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

54. mál
[12:21]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel frumvarpið vera góðra gjalda vert og ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra að þetta sé skoðunarvert atriði. Það er annað skoðunarvert sem ég vil beina til hæstv. ráðherra í þessu samhengi. Rætt hefur verið á þingi um þjónustustig sem íbúar landsbyggðarinnar búa við og síðast í morgun varðandi háhraðatengingar. Talað hefur verið um menntun, læknisþjónustu og hluti sem íbúar landsbyggðarinnar hafa ekki sama aðgang að þeir sem búa í þéttbýli. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hann sé tilbúinn að hugleiða, skoða og jafnvel að beita sér fyrir því að íbúar á landsbyggðinni sem búa við lægra þjónustustig en íbúar á höfuðborgarsvæðinu, greiði lægra hlutfall tekjuskatta? Þá er maður kominn nær hv. þm. Pétri Blöndal. Ekki er það mikil flækja í skattkerfinu í dag að hafa mismunandi þrep. Við gátum það á árum áður upp úr 1960 og fram til 1967–1968, vorum með þykkar bækur yfir álagningarstofna frá 10 þús. kr. og áfram upp úr. Ég beini því til hæstv. ráðherra að hann lýsi áliti sínu á því að hugsanlega sé eitt lægra skattþrep í hinum dreifðu byggðum en á höfuðborgarsvæðinu. (Gripið fram í.)