135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

54. mál
[12:27]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka svar mitt frá því áðan. Mér hugnast þetta ekki og ég held ekki að það sé gott að fólk velji sér búsetu út frá því hvernig skattarnir eru. Ég held reyndar að í Noregi, þar sem þessu hefur verið beitt með tilteknum hætti, hafi það ekki virkað neitt sérstaklega vel.

Við megum heldur ekki gleyma því að það eru líka ákveðnir jákvæðir þættir við að búa úti á landsbyggðinni, í dreifbýlinu, sem ekki finnast í þéttbýlinu. Ég held að við þurfum að leyfa fólki að velja búsetu út frá þeim forsendum frekar en út frá fjárhagslegum forsendum.

Hvað varðar skatteftirliti erum við auðvitað alltaf að reyna að gera hlutina sem einfaldasta þannig að við þurfum ekki að elta fólk og hafa eftirlit. Ef við getum leyst málin með öðrum hætti eigum við að gera það þannig. Ég held að við getum gert það og ég held að við gerum það. Það er náttúrlega ekki rétt hjá hv. þingmanni — sérstaklega ef við tökum tillit til þeirrar umræðu sem fram fór í dag um háhraðatengingar og símatengingar. Verið er að vinna gríðarlega gott starf þeim efnum. Við tölum um að bæta þjónustuna í menntakerfinu og höfum orðið vitni að því að hv. þingmaður í okkar ágæta kjördæmi — þar er að mínu mati verið að gera stórkostlega hluti með því að bæta þjónustu í heilbrigðiskerfinu og auka umsvif heilbrigðisstofnana í kjördæminu. Hv. þingmaður er beinlínis ósanngjarn þegar hann segir að ekkert sé verið að gera í þessum málum úti í hinum dreifðari byggðum.