135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

54. mál
[12:40]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fram kom í máli hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar að hann væri ekki stuðningsmaður þess að hafa breytilega skattheimtu af hálfu ríkisins eftir búsetu og það er út af fyrir sig sjónarmið sem margir aðhyllast. En ég vil vekja athygli á því, eins og kom reyndar fram í máli þingmannsins, að sú er reyndin á sveitarstjórnarstiginu að skattar eru breytilegir eftir búsetu af þeirri einföldu ástæðu að hver sveitarstjórn hefur svigrúm um ákvörðun á skattheimtunni, bæði fasteignaskatti og útsvari, þannig að þessir tveir skattar eru breytilegir, mismunandi á sömu tekjur, eftir búsetu. Pinsippið er því viðurkennt af stjórnvöldum, það er viðurkennt af löggjafanum, af Alþingi, að þetta sé ekki bara heimilt heldur eigi að vera hægt að beita þessu.

Þess vegna geta menn á Alþingi ekki neitað því að taka til athugunar að beita sömu sjónarmiðum þegar í hlut eiga skattar ríkissjóðs. Menn geta haft þá skoðun að ekki eigi að mismuna eftir búsetu en mismununin er til staðar. Vilji menn ekki hafa hana á að afnema hana af sveitarstjórnarsköttunum. Vilji menn viðhalda henni á sveitarstjórnarsköttunum verða menn að fallast á að taka til skoðunar að beita þessu ákvæði á landsvísu á ríkissköttunum. Það er staðreynd að við ákvörðun á búsetu einstaklinga vega fjármálin mjög þungt. Þó að þau séu ekki eini þátturinn vega þau mjög þungt og ríkið getur haft áhrif á það val (Forseti hringir.) með skattheimtunni.