135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

54. mál
[12:42]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Örstutt vegna orða hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar um mismunandi skattprósentu eftir búsetusvæðum. Í mínum huga gildir tvennt ólíkt um sveitarstjórnarstigið og ríkisvaldið. Sveitarstjórnarstigið er afmarkaðra rými þar sem verið er að vinna með verkefni næst þeim kjarna sem innan vébanda sveitarfélagsins er. Svigrúm sveitarstjórnarmannsins og íbúanna er allt annað til ákvarðanatöku en á því háa Alþingi sem við stöndum þar sem við erum að fjalla um málefni alls landsins. Við erum að fjalla um þetta eina land okkar og skilyrði til búsetu í landinu í samkeppni við önnur svæði í veröldinni.

Sveitarstjórnarstigið og sveitarfélagið er miklu minni eining og á allan hátt miklu gegnsærri og á allan hátt miklu auðveldara að vinna með en nokkurn tíma það stóra svið sem við erum að sýsla með hér á Alþingi. Ég geri því þá kröfu sem íbúi í þessu landi á grunni þess skatts sem ég greiði til ríkisins að ég fái þá þjónustu sem mér ber sama hvar ég bý á landinu. Svo er annað mál hvernig gengur að uppfylla það. Við höfum mismunandi aðstæður í hverju sveitarfélagi þrátt fyrir mismunandi skattstofna sveitarfélaga þó svo að sveigjan sé ekki ýkja mikil, hún er mest sennilega, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi, í fasteignagjöldunum fremur en í útsvarinu. Ég er þeirrar skoðunar að breytileikinn í skattheimtu sveitarfélaga sé til muna langmestur á fasteignir sveitarfélaga en nokkurn tíma á launatekjur.