135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

einkarekstur og útvistun á starfsemi Landspítala.

[13:43]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði á haustdögum, með leyfi forseta, að erfitt hefði verið að fá aðra stjórnmálaflokka en Samfylkinguna til að styðja stefnu Sjálfstæðisflokksins um markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Á þessum sviðum eru ótrúlega miklir möguleikar, sagði hann, fram undan sem Samfylkingin er tilbúin að vera með okkur í en aðrir flokkar voru það ekki. Þetta eru stór orð, þetta eru orð sem boða tímamót.

Það er rétt, við framsóknarmenn stóðum vörð um jafnan rétt borgaranna í heilbrigðiskerfinu. Við framsóknarmenn höfnuðum einkavæðingu og að veikja heilbrigðiskerfið þótt einkaframkvæmd á einstaka þáttum hafi verið þekkt um langt skeið og við höfum staðið að henni.

Hæstv. heilbrigðisráðherra fann feitan gölt til að flá. Það voru persónulegar upplýsingar um sjúklingana og miklar upplýsingar sem vafi er á að eigi erindi út fyrir sjúkrahúsin og munu valda mörgum áhyggjum. Hæstv. heilbrigðisráðherra verður því að fara yfir þetta mál á nýjan leik, þetta getur veikt heilbrigðiskerfi okkar, veikt trúnað sem mun hafa mikil áhrif. Hér er um láglaunastörf að ræða, það liggur fyrir að ekki mun verða um peningalegan sparnað að ræða í svona aðgerð.

Ég segi því við hæstv. heilbrigðisráðherra: Það er gaman að fara upp í Heimdall og vera heiðraður þar fyrir afrek sín, þangað sem ungu mennirnir koma og segja að frjálshyggjan hafi náð fram og einkavæðing hafi átt sér stað. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur slegið sig til riddara og segir við unga fólkið: Sjáið þið hvernig ég tók það, svona eins og Jón sterki gerði forðum. En hér er um mjög alvarlegt mál að ræða. Í rauninni lítið mál peningalega sem ekki verður sparnaður í en stórt mál sem snýr að sjúklingum þessa lands, mér og þér, (Forseti hringir.) og að upplýsingum sem allir vilja að trúnaður ríki um. (Forseti hringir.) Ég bið því hæstv. heilbrigðisráðherra að fara á nýjan leik yfir þetta mál og hugsa það af skynsemi.