135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

einkarekstur og útvistun á starfsemi Landspítala.

[13:49]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er orðið tímabært að við ræðum sérstaklega stöðu Landspítalans, ekki eingöngu út frá rekstrarlegri stöðu heldur og ekki síður stefnu og hlutverk háskólasjúkrahússins.

Hvert viljum við stefna? Viljum við hafa þjónustuna innan sjúkrahússins eins og bútasaumsteppi þar sem margir sjálfstæðir rekstraraðilar starfa, hver með sitt hlutverk, og mæta til vinnu án þess að vera samábyrgir í almennum og daglegum störfum eins og verið hefur?

Dæmi um slíka þjónustu er öll ræsting sem er nú sinnt af einkarekinni starfsmannaleigu og starfsmannahaldið er því alfarið á vegum fyrirtækisins, kaup og kjör þessa starfsfólks einnig. Hefur þetta fyrirkomulag bætt kjör þessa fólks eða þrifin á sjúkrahúsinu? Annað dæmi er aðkeypt einkarekin hjúkrunarþjónusta inni á deildum sjúkrahússins. Hvaða áhrif hefur það á dagleg störf á deildum að fá utanaðkomandi starfsmann á einstakar vaktir, starfsmann sem ráðinn er á öðrum kjörum og betri kjörum af öðrum rekstraraðila og ber því ekki ábyrgð á starfi deildarinnar sem slíkrar, aðeins þessari einu vakt og getur svo farið? Væri ekki nær að bæta kjör vaktavinnufólks og kvennastétta og fá aftur til starfa það hæfa starfsfólk sem ráðið hefur sig í önnur störf?

Dæmi um útvistun eru tæknifrjóvganir sem Landspítalinn sinnti með góðum árangri þar til að deildinni var lokað í sparnaðarskyni. Var það faglegt mat eða sparnaður hjá Landspítalanum eða meðvituð pólitísk ákvörðun að koma góðri heilbrigðisþjónustu út í einkarekstur? Hefur einkareksturinn sparað ríkissjóði eða bætt árangur meðferðar eða er kostnaður þeirra sem fá þjónustu sambærilegur? Annað gott dæmi gæti orðið lokun Bergiðjunnar, deild á endurhæfingarsviði geðdeildarinnar sem stendur til að loka nú 1. maí. Er það faglegt mat eða er það gert í sparnaðarskyni?

Hæstv. forseti. Það er mikilvægt að meta þær aðgerðir sem Landspítalinn hefur þegar komið (Forseti hringir.) í einkarekstur og hvort breyta eigi starfsemi stofnunarinnar eingöngu út frá fjárhagsramma hennar eða hvort (Forseti hringir.) faglegt og þjóðhagslegt mat eigi einnig að liggja þar að baki.