135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

einkarekstur og útvistun á starfsemi Landspítala.

[13:51]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Stjórnvöld eiga að sjá til þess að landsmenn hafi jafnan aðgang að tímanlegri, góðri og öruggri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Stjórnvöld eiga einnig að gæta hagkvæmni í meðferð opinberra fjármuna. Núverandi stjórnarflokkar hafa á stefnuskrá sinni að auka vægi einkarekstrar og annarra rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu. Með því megi ná enn betri árangri með hagkvæmari hætti á ýmsum sviðum heilbrigðisþjónustunnar en nú er. Þetta er gert með hag almennings og hag ríkissjóðs í huga.

Forsíða Morgunblaðsins í dag talar sínu máli. Þar er vísað í óbirta skýrslu heilbrigðisráðuneytisins sem bendir til að spara megi um 400 millj. kr. á ári og auka um leið aðgengi og gæði heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu með því að breyta rekstrarformi hennar úr ríkisrekstri í einkarekstur. Þessum árangri má ná án þess að slá nokkuð af grundvallarmarkmiðum okkar um að heilbrigðisþjónusta skuli byggð á samfélagslegum grunni.

Vinstri grænir hafa fordóma gagnvart einkarekstri í heilbrigðisþjónustu. Það hefur ekki farið fram hjá neinum. Þeir fara nú sem fyrr hamförum þegar léð er máls á því að einkaaðilar taki að sér verkefni innan heilbrigðisþjónustunnar. Þeir kjósa að horfa fram hjá staðreyndum um kosti þess fyrir almenning og ríkissjóð. Vinstri grænir vilja einfaldlega að allir heilbrigðisstarfsmenn séu ríkisstarfsmenn.

Virðulegi forseti. Tilefni umræðunnar er útvistun á skráningu sjúkraskráa á slysa- og bráðasviði Landspítala. Vandi sviðsins er að þar eru uppsafnaðar 30.000 sjúkraskrár sem bíða þess að vera ritaðar í sjúkraskrárkerfi spítalans. Það ástand er óviðunandi fyrir alla aðila. Því er það rétt ákvörðun stjórnenda sjúkrahússins að leita til einkaaðila til að létta verkefnum af starfandi læknariturum spítalans. Engum læknaritara verður sagt upp, næg eru verkefnin samt.

Við vinstri græna vil ég segja: Fordómar um rekstrarform mega ekki koma í veg fyrir að leitað sé bestu leiða til að veita landsmönnum tímanlega, góða og örugga heilbrigðisþjónustu. Slíkir fordómar vinna gegn hagsmunum almennings. (Gripið fram í: … Sjálfstæðisflokksins.)