135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

einkarekstur og útvistun á starfsemi Landspítala.

[13:53]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Í umræðum um form rekstrar heilbrigðisstofnana er mikilvægt að gera skil á beinni þjónustu við sjúklinga annars vegar og stoðþjónustu innan stofnananna hins vegar. Framsóknarflokkurinn vill ekki einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar en á síðustu árum hafa hins vegar verið gerðir ýmsir samningar um þjónustu í heilbrigðiskerfinu í formi einkarekstrar með ágætum árangri. Hvað varðar stoðþjónustu innan heilbrigðisstofnana þá hafa stofnanirnar verið að leita leiða til aukinnar hagkvæmni í rekstri. Eitt af því sem sumar stofnanir hafa gert er að útvista einstaka stoðþjónustu út úr stofnununum með samningum við einkaaðila. Með því hafa stofnanirnar náð fram hagræðingu í rekstri án þess að það hafi komið niður á starfsemi þeirra.

Hvað varðar útvistun á starfsemi Landspítalans þá er þar um að ræða vandaverk og verður að stíga varlega til jarðar í þeim efnum. Varðandi útvistun á læknaritaraþjónustunni þá hefur, eins og komið hefur fram, Landspítalinn hugmyndir um að útvista þeirri starfsemi en þar verður að gæta að því grundvallaratriði sem lýtur að persónuvernd og öryggi í meðferð viðkvæmra upplýsinga. Ég kalla eftir nánari skýringu frá hæstv. ráðherra varðandi þetta atriði. Hins vegar er þetta líklega framkvæmanlegt af praktískum ástæðum og getur m.a. fallið að hugmyndum um störf án staðsetningar með því að nýta upplýsingatæknina en þetta eru mál sem verður að skoða mjög vel.

Herra forseti. Ég legg áherslu á að Framsóknarflokkurinn er andvígur einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni og það er öllum kunnugt en nú eru vísbendingar um að hæstv. heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnin séu að undirbúa einkavæðingu heilbrigðisþjónustunnar með fulltingi Samfylkingarinnar. Nægir þar að nefna og vísa í ummæli hæstv. forsætisráðherra sem hv. þm. Guðni Ágústsson vék að áðan. Nú eru sjálfstæðismönnunum allir vegir færir með Samfylkingunni.