135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

einkarekstur og útvistun á starfsemi Landspítala.

[13:57]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að í heilbrigðiskerfinu sé þess gætt að tryggja sem best öryggi sjúklinga, það er kjarni málsins, og að landsmenn eigi aðgang að kerfinu án tillits til efnahags eða búsetu.

Læknaritarastörf eru stoðþjónusta í eðli sínu og í sjálfu sér ekkert öðruvísi en önnur stoðþjónusta sem boðin hefur verið út eða útvistuð frá stofnunum. Ég get ekki séð að ástæða sé til þess að fara af hjörunum yfir því að það eigi að færa þau til og til greina komi að þeir sem vinni þau verk sem hafa safnast upp séu ekki starfsmenn spítalans. Menn verða að hafa í huga að læknaritarar starfa víðar en á Landspítalanum, þeir starfa víðar en á spítölum ríkisins eða heilsugæslustöðvum ríkisins, þeir starfa hjá sérfræðingum og þeir starfa hjá sjálfseignarstofnunum. Ég verð ekki var við það eða hef ekki heyrt talað um það að öryggis sjúklinga sé ekki gætt varðandi meðferð upplýsinga á þessum stöðum. (GÁ: Ertu ekki vinstri maður lengur?)

Virðulegi forseti. Hér kallar hv. þm. Guðni Ágústsson fram í: Ertu ekki vinstri maður lengur? Það er sjúklingurinn sem er aðalmálið, að hann fái þá þjónustu sem hann þarf á að halda. (Gripið fram í: Og öryggi.) Og öryggi. Og öryggis er ekki gætt ef upplýsingarnar eru ekki skráðar í kerfið. Það er vandinn og vekur óöryggi sjúklinga að upplýsingarnar eru ekki til staðar. Nú er verið að tala um að búa til samræmdan gagnabanka fyrir alla landsmenn sem allir eiga að hafa aðild að sem starfa í heilbrigðiskerfinu, bæði hjá Landspítalanum og hjá einkafyrirtækjum og sérfræðilæknum. Og ég vil þá spyrja hv. formann Framsóknarflokksins: Telur hann að það sé ómögulegt kerfi sem landsmenn eigi að óttast?