135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

54. mál
[14:14]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru þrjú atriði: Í fyrsta lagi gat ég um góðu málin. Ég setti þau að sjálfsögðu innan gæsalappa því að ef þau eru nógu mörg, ylskór handa öldruðum o.s.frv., kallar það á alveg gífurlega flækju í skattkerfinu. Það kallar á eftirlit og heilmikinn kostnað, bæði skattgreiðenda og ríkisvaldsins við að tékka á því að menn keyri raunverulega það sem þeir segjast hafa keyrt, að menn kaupi raunverulega það sem þeir segjast hafa keypt.

En það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann um, og það er dálítið merkilegt að nú eru allir umhverfisverndarsinnar farnir úr salnum nema kannski hv. þm. Atli Gíslason, að ekkert hefur verið minnst hér á koldíoxíðslosun. Frumvarpið felst í því að hvetja fólk til að keyra meira, það kom fram í máli hv. þingmanns að hvetja á fólk til að keyra miðað við óbreytt ástand. Sagt er að fólk geti ekki sótt vinnu um langan veg. Frumvarpið hvetur menn til að keyra meira, menga meira með koldíoxíðslosun.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, fyrst aðrir fjalla ekki um það — og ég er kannski ekki fyrsti maðurinn til að tala um það — hvort hann hafi aldrei hugleitt að það geti orðið niðurstaðan úr frumvarpinu, að það valdi að vissu marki hlýnun jarðar?

Svo langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki heyrt eða tekið eftir því sem hæstv. fjármálaráðherra sagði, hvort ekki ætti að taka upp almennan kostnað við öflun tekna. (Gripið fram í.) Hér á ég við almennan kostnað við það að sækja atvinnu eða hvort sérstakur frádráttur verði veittur almennt séð við það að sumt fólk aflar tekna með því að stunda vinnu.