135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

54. mál
[14:16]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er þetta með góðu málin, ég kýs yfirleitt að standa með góðum málum og hef margsagt það hér í þessum ræðustól að þingmenn Frjálslynda flokksins hafa valið þá aðferð, t.d. við afgreiðslu fjárlaga, að standa með þeim málum sem menn hafa talið til bóta, hvort sem þau hafa komið frá ríkisstjórn eða stjórnarandstöðu, og við höfum flokkað málin með því hugarfari að styðja þau mál sem við teldum að væru til framfara fyrir þjóðfélagið.

Ég lít svo á, hæstv. forseti, að þó að einhver kostnaður fylgi því að efla þjóðfélagið og koma því lengra fram á þær brautir sem við viljum stefna að getum við ekki lagst gegn góðum málum bara vegna þess að það fylgi þeim kostnaður því að þegar þau hafa náð fram að ganga fylgir þeim oft síðar hagkvæmni og arðsemi. Ég held að það megi vissulega færa rök fyrir því að það mál sem við flytjum hér sé þannig vaxið. Það stuðlar væntanlega að því, eins og hv. þm. Jón Magnússon vék réttilega að, að fólk geti valið sér búsetu utan þéttbýliskjarna og sótt atvinnu inn til svæða o.s.frv. Það eflir byggðaþróunina og eflir það að fólk geti valið sér búsetu þar sem það vill búa þó að atvinnan sé einhvers staðar annars staðar. Ég held að það sé jákvætt og við þurfum ekki að leggjast gegn því. Og þó að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi áhyggjur af mengun andrúmsloftsins í þessu sambandi þá tek ég ekki þátt í þeim áhyggjum með honum. Ég held að það sé eftir miklu meiru að slægjast en því sem hann er að vekja athygli á, þ.e. að við notum farartæki, bíla of mikið. Það gerir íslensk þjóð hvort sem okkur líkar betur eða verr, sennilega fáir meira.

Almennt um kostnað við að afla tekna þá er það þekkt, hæstv. forseti, að í fjöldamörgum starfsstéttum er (Forseti hringir.) mönnum lagður til einkennisklæðnaður og ýmis fríðindi sem ekki er talið fram til tekna. (Forseti hringir.) Ég ætla ekki að fara að reyna að rekja það hér en þannig er málið.