135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

tekjuskattur.

54. mál
[14:20]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að við erum að leita eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og hv. þingmaður er í ríkisstjórnarflokki vænti ég þess að hann komi þessum áhyggjum sínum mjög vandlega á framfæri — ef okkur skyldi hlotnast sá heiður — að hann hafi áhyggjur af því að á Íslandi standi menn fyrir þeim aðgerðum að 700–800 eða 1.000 Íslendingar aki eitthvað meira vegna þess að það hefur verið tekið tillit til atvinnusóknar. Ég vil hins vegar benda hv. þingmanni á, af því að hann nefndi þetta í þessu samhengi, að það er auðvitað tvennu ólíku saman að jafna fjölda Íslendinga og Kínverja, svo ég nefni eitthvað sem þingmaðurinn gæti hafa haft í huga. Ég skil ósköp vel að menn geti haft áhyggjur af því á heimsvísu ef svo fjölmennar þjóðir eins og Kínverjar fara allir að aka í bíl. Reyndar held ég að göturnar í Peking mundu lokast og teppast algjörlega ef allir færu af hjólunum og yfir á bíla.

Það er rétt, hv. þm. Pétur Blöndal, það eru svo mörg dæmi um það að menn megi taka við framlögum í ýmsu formi, þess vegna klæðnaði, og margs konar réttindi sem menn hafa að þau verða ekki talin hér upp í stuttu andsvari við hv. þingmann. Það er auðvitað hægt að rekja það en það kostar svolitla yfirlegu. Ég þekki til úr gömlum kjarasamningaviðræðum, áratugum saman, ýmislegt sem snýr að þessari hlið mála en get ekki rakið það hér í stuttu máli en í mjög mörgum starfsgreinum hafa menn skattfríðindi út á ýmislegt sem tengist störfum þeirra.