135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[14:22]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Á þingskjali 158 flyt ég frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2007 ásamt þremur öðrum þingmönnum, þeim Guðjóni A. Kristjánssyni, Grétari Mar Jónssyni og Jóni Magnússyni. Lagt er til í frumvarpinu að bæta við 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2007 nýjum tölulið sem verði nr. 7.15, svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Að semja við hlutafélagið Spöl hf. um að ríkið yfirtaki veggöngin undir Hvalfjörð ásamt tilheyrandi mannvirkjum og skuldum félagsins vegna ganganna og fella þá strax niður veggjaldið um göngin.“

2. gr. frumvarpsins kveður á um að lög þessi öðlist þegar gildi.

Með þessu frumvarpi fylgir greinargerð ásamt þremur fylgiskjölum og ég vil aðeins gera grein fyrir því. Greinargerðin er svohljóðandi:

Flutningsmenn leggja til að ríkið yfirtaki nú þegar Hvalfjarðargöngin og skuldir sem þeim tilheyra. Samkvæmt gildandi samningi milli ríkisins og Spalar hf. mun ríkið eignast göngin ásamt tilheyrandi mannvirkjum án endurgjalds við lok samningstíma árið 2018. Eftirstöðvar skuldanna eru um 3,9 milljarðar kr. sem verða greiddar upp á næstu 11 árum. Gert er ráð fyrir því samkvæmt frumvarpinu að fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkisins, semji við Spöl hf. um yfirtöku eigna og skulda félagsins strax á þessu ári og samhliða verði veggjaldið fellt niður. Ríkissjóður annist síðan greiðslu af áhvílandi skuldum.

Talið var á sínum tíma þegar þessi tilhögun var ákveðin árið 1990 að þróunin yrði á þann veg að víðar yrðu kostnaðarsöm umferðarmannvirki fjármögnuð með sambærilegum hætti. Reyndin hefur orðið sú að Hvalfjarðargöng eru eini kaflinn á þjóðvegum landsins þar sem innheimt er sérstakt veggjald til viðbótar sköttum og gjöldum sem umferðin ber. Þykja ekki forsendur til þess að viðhalda gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum í því ljósi.

Gjaldtakan hefur áhrif á búsetuþróun og búsetuskilyrði, einkum á Vesturlandi eins og kemur glögglega fram í álitsgerð sem Vífill Karlsson hagfræðingur vann fyrir 1. flutningsmann í desember 2004. Miðað við tilteknar forsendur telur Vífill að heildarávinningur Vestlendinga af niðurfellingu gjaldsins verða á bilinu 4,5–5,0 milljarðar kr. að núvirði eða að jafnaði 275–306 millj. kr. árlega.

Síðan álitsgerðin var samin hefur Spölur endursamið um skuldir sínar og hugsanlega hefur það einhver áhrif á fyrrgreint mat, en það hefur ekki verið athugað sérstaklega. Þó vilja flutningsmenn setja fram það mat sitt að í heild leiði af skuldbreytingunni óveruleg áhrif og því megi styðjast við álitsgerð Vífils Karlssonar og fá með henni gott mat á þeim ávinningi sem leiðir af niðurfellingu gjaldsins.

Í álitsgerðinni kemur fram að ávinningurinn fyrir Vestlendinga birtist einkum í hærra virði fasteigna, hærri launum, lækkandi vöruverði, aukinni þjónustu og auknu atvinnuúrvali og atvinnuöryggi. Áhrifanna mundi einnig gæta í fjarlægari landshlutum, svo sem á Vestfjörðum, Norðurlandi og jafnvel Austfjörðum. Þá er líka um að ræða ávinning í hina áttina, það er að segja íbúar höfuðborgarsvæðisins munu einnig njóta góðs af afnámi gjaldtökunnar og telur Vífill Karlsson að sá ávinningur geti verið meiri í krónum talið ef eitthvað er.

Athyglisvert er að árlegur ávinningur Vestlendinga af því að fella niður veggjaldið er langt í það jafnmikill og ávinningur af Hvalfjarðargöngunum sjálfum. Í októbermánuði 2004 kom út vönduð skýrsla um áhrif Hvalfjarðarganga á búsetuskilyrði og búsetuþróun á Vesturlandi, sem Vífill Karlsson vann fyrir samtök sveitarfélaga á Vesturlandi. Niðurstaða hans er að árlegur ávinningur þeirra sé um 500 millj. kr. Niðurfelling veggjaldsins mun auka þennan ávinning um 60%.

Þetta má orða á annan veg, sem sé þann að ákvörðun um að hafa veggjald hafi valdið því að aðeins 60% af mögulegum ávinningi Vestlendinga af Hvalfjarðargöngunum hafi skilað sér til íbúanna og þeir því farið á mis við framfarir, sem því nemur, sem hefðu annars orðið eftir að göngin voru tekin í notkun. Sama er líklegt að eigi við um íbúa höfuðborgarsvæðisins, ávinningur þeirra af göngunum er verulegur og veggjaldið hefur dregið úr honum.

Flutningsmenn leggja áherslu á gildi Hvalfjarðarganganna og nauðsyn þess að ráðist var í gerð þeirra, þrátt fyrir veggjald. En gjaldið hefur hindrað fullan ávinning af göngunum til þessa og flutningsmönnum þykir tímabært að bæta úr með frumvarpi þessu.

Þannig er greinargerðin sem fylgir með þessu frumvarpi, virðulegi forseti. Í fylgiskjali I með frumvarpinu er gerð grein fyrir og birt álitsgerð Vífils Karlssonar um veggjald Hvalfjarðarganganna, hver ávinningurinn að hans mati kunni að vera við það að fella niður veggjaldið og hvar það skilar sér. Eins og fram hefur komið í greinargerðinni þá er hann talinn vera fyrir Vestlendinga 275–306 millj. kr. árlega. Við það bætist svo ávinningur höfuðborgarbúa af niðurfellingu gjaldsins. Sá ávinningur hefur ekki verið metinn en ætla má að hann sé ekki langt frá þeim ávinningi sem Vestlendingar njóta.

Ávinningurinn kemur fram eins og tilgreint var í greinargerðinni í hærra virði fasteigna vegna þess að fasteignamarkaðurinn verður heilsteyptari og hærri launum, sérstaklega í Borgarfirði. Þá er talið að afnám gjaldsins muni leiða til þess að laun muni hækka á því svæði sem er norðan Akraness, en meðallaun þar eru einmitt talin vera um 75–80% af meðallaunum höfuðborgarsvæðisins. Afnám gjaldsins mun því stuðla að því að launastigið eða kaupstigið verði hærra norðar á þessu svæði. Eðlilega með sterkari vinnumarkaði þá yrði meira atvinnuúrval og atvinnuöryggi og það sem er athyglisvert líka, að vöruverð mun lækka við afnám veggjaldsins. Það er nú ekki beint mat á því hversu mikið vöruverð muni lækka í þessari álitsgerð þannig að sú fjárhæð sem nefnd hefur verið um ávinning sem er um 300 milljónir á ári fyrir Vestlendinga á bara við um sparnað af kostnaði við umferðina. Ávinningur vegna hærra fasteignaverðs eða lægra vöruverðs hefur ekki verið metinn þannig að hann er til viðbótar þessum tölum.

Til samanburðar var talið að Hvalfjarðargöngin sjálf með veggjaldinu hefðu leitt til lægra matvöruverðs. Sá ávinningur var metinn um 300 millj. kr. á ári fyrir Vestlendinga þannig að menn sjá að um háar fjárhæðir að ræða sem ávinningurinn bæði af göngunum og því að fella niður veggjaldið svo í framhaldinu mun bera með sér.

Í öðru lagi, í fylgiskjali II, er samningurinn um veggtengingu við utanverðan Hvalfjörð birtur þannig að menn geta kynnt sér hvernig samningurinn er sem var undirritaður í apríl 1995 og í þriðja lagi, í fylgiskjali III, er kafli um skýrslu sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi létu gera um áhrif Hvalfjarðarganganna á búsetuskilyrði og búsetuþróun á Vesturlandi þar sem er farið yfir ávinninginn af því að fá göngin með veggjaldinu. Síðan er birt tafla þar sem fjárhæðirnar eru dregnar fram. Eins og fram hefur komið er ávinningurinn af göngunum sjálfum talinn vera um 500 milljónir á ári sem er sparnaður í umferðarkostnaði. Því til viðbótar er talið að vöruverð hafi lækkað um 300 millj. kr. á ári og að virði eigna, íbúða og atvinnuhúsnæðis, hafi aukist 400 millj. kr. þannig að þarna er um háar fjárhæðir að ræða. Síðan mundi til viðbótar þessum ávinningi við göngin sjálf bætast við ávinningurinn af því að fella niður veggjaldið og það hefur verið farið yfir það í greinargerðinni. Það mun auka ávinninginn um 60%.

Ég vil svo segja að lokum, virðulegi forseti, að ég tel afar nauðsynlegt að tekið verði á þessu máli meðal annars út frá þeirri stýringu sem hið opinbera hefur á byggðaþróun í nágrenni höfuðborgarsvæðisins með aðgerðum sínum sem eru heilmiklar og áhrif þeirra mjög mikil. Þegar er verið að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar sem hefur styrkt mjög Suðurnesin og greitt fyrir því að þar hefur verið mikil íbúaþróun á síðustu árum sem er það sterk að jafnvel þótt ameríski herinn hafi farið úr landi mjög snögglega og mörg hundruð störf horfið á einu bretti þá er samt mesta fólksfjölgun á landinu á Suðurnesjum á síðasta ári að því er fram kemur í vefriti hjá fjármálaráðuneytinu.

Nálægðin við höfuðborgarsvæðið er því mjög nauðsynleg og hefur mikil áhrif á byggðaþróun og það að greiða fyrir umferð eins og þarna er gert hefur mjög sterk áhrif. Í öðru lagi eru á fleygiferð áform — og ég hygg að megi segja að liggi fyrir pólitískur vilji ríkisstjórnarinnar — um að hraða mjög tvöföldun þjóðvegarins frá Reykjavík til Selfoss. Það mun líka stýra byggðaþróuninni frá höfuðborgarsvæðinu austur fyrir fjall.

Hins vegar ef við horfum í norðurátt þá er allt stopp. Þá erum við í fyrsta lagi með veggjald í Hvalfjarðargöngum sem hindrar fullan ávinning af göngunum og hindrar að byggðaþróunin verði eins sterk og ella hefði orðið og Sundabrautin er algjörlega stopp. Það eina sem þar er rætt um er innanbæjarhluti Sundabrautar frá Sundahverfinu og upp í Grafarvog. Það er engin umræða eða engin áform sem ég veit um að setja í gang framhaldið sem á að tengja Sundabrautina við Kjalarnesið og tvöföldunin eða breikkun vegarins frá Kjalarnesi og upp í Borgarnes er í algjöru frosti, virðulegi forseti. Ég komst að því á dögunum þegar við vorum að kynna okkur þessi mál, þingflokkur frjálslyndra, að það er ekkert að gerast í því að breikka þjóðveginn norður á bóginn til Borgarness. Það er bara algjörlega í frosti. Þar er ekkert að gerast. Þá er afleiðingin alveg augljós af því sem ríkisstjórnin er að gera og sem hún er ekki að gera, að fjölgun íbúa út frá höfuðborgarsvæðinu, sem er mjög mikil og mun verða á næstu árum mjög mikil, fer austur fyrir fjall og hún fer til Suðurnesja. En hún fer ekki upp á Vesturland. Það er verið að stýra áhrifunum frá Vesturlandi.

Ég er ekki viss um að þetta sé meðvituð ákvörðun hjá ríkisstjórninni. Ég vil bara ekki trúa því. Ég held að það sé bara ekki þannig. En þetta er alla vega það sem er og ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að taka þetta til athugunar og hv. þingmenn stjórnarliðsins og beita sér fyrir því að ríkið hagi sinni stefnu og sínum verkum þannig að jafnræðis sé gætt í byggðaþróuninni út frá höfuðborgarsvæðinu. Það er mjög mikils virði fyrir svæðið á Vesturlandi og eins náttúrlega í áframhaldinu Vestfirði og Norðurlandið. Það hefur mjög mikil áhrif á búsetuskilyrði og mat manna á því svæði.

Fleira vildi ég ekki segja, virðulegi forseti, um þetta en að koma með þessar ábendingar í lokin. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari umræðu og til fjárlaganefndar.