135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[14:52]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir mjög góða ræðu um það mál sem hér er á dagskrá. Í ræðu hans kemur að mínu mati fram afdráttarlaus vilji til þess að umrædd gjaldtaka verði afnumin. Ég velti því þó fyrir mér hvað þessu máli líður innan ríkisstjórnarflokkanna. Eins og hv. þingmaður kom inn á var þetta jú eitt af stærri loforðum Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar og það hefur varla verið gert án samþykkis og samráðs við flokkinn í heild, svo gríðarlega mikil áhersla sem á þetta var lögð. Ég velti því líka fyrir mér hvenær þess megi vænta að Samfylkingin láti á það reyna að ná þessu fram í ríkisstjórnarsamstarfinu.

Eins og hv. þingmaður kom inn á er þetta eina gjaldtakan sinnar tegundar hér á landi. Það er heldur ekki svo að ekki sé ærin gjaldtaka vegna umferðar í gegnum olíu- og bensíngjald þannig að ég get ekki séð rök fyrir nýjum sköttum, nýjum álögum á vegfarendur, til þess að fjármagna framkvæmdir, ekki síst þegar þeir tekjustofnar sem við þegar höfum til vegaframkvæmda hafa ekki alltaf verið fullnýttir og að hluta til runnið í ríkissjóð, eða féð hefur verið geymt þar. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

Ég spyr hv. þingmann: Hvenær er þess að vænta að við fáum að sjá stefnu Samfylkingarinnar og hv. þingmanns í þessu máli í raun?