135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[14:55]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta snýst því miður ekki lengur um afstöðu Samfylkingarinnar heldur um stefnu ríkisstjórnarinnar og ég tek undir það með hv. þingmanni að við þurfum að kalla eftir því að sú vinna verði unnin í ríkisstjórninni.

Ég legg áherslu á að skoða tekjuhlutann eins og hv. þm. Jón Bjarnason benti á. Ný ríkisstjórn er að gera stórátak, yfir 30 milljarðar eru ætlaðir í framkvæmdir á þessu ári og allar þær framkvæmdir eru gríðarlega mikilvægar. Fram undan eru stór verkefni eins og Sundabrautin og tvöföldunin og áfram þarf að vinna í tengivegum úti á landi. Ég treysti því á að þessi umræða fari fram í tengslum við endurskoðun á samgönguáætlun, þar verði fjallað um gjaldtöku og mun ég að sjálfsögðu beita mér fyrir skoðunum mínum innan Samfylkingarinnar og þar með í ríkisstjórninni. Við skulum sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu. Það er mjög mikilvægt að við förum yfir og skoðum málið til enda. Það er ástæðan fyrir því að ég hef ekki flutt mál um Hvalfjarðargöngin, það skiptir mig miklu máli að málið nái fram að ganga en ekki að merkja mér það umfram það sem ég hef reynt að gera.

Ég vil vekja athygli á því að strax fimm árum eftir að göngin voru tekin í notkun var flutt þingsályktunartillaga um að afnema Hvalfjarðargangagjaldið. Sú tillaga var flutt af Guðjóni Guðmundssyni sem þá var þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Ég vona því að þetta verði tekið til alvarlegrar skoðunar, þetta er prinsippumræða, ekki hefur unnist tími til þess. Stórátak er fram undan í samgöngumálum og það er okkar að finna út hvernig á að fjármagna það en ég mun ekki sætta mig við að það verði gert með gjaldtöku á einni leið út úr Reykjavík.