135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[15:02]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til fjáraukalaga sem hv. þingmenn Kristinn H. Gunnarsson, Guðjón A. Kristjánsson, Grétar Mar Jónsson og Jón Magnússon leggja fram og hljóðar upp á það, eins og kom fram í máli hv. framsögumanns áðan, að semja við hlutafélagið Spöl hf. Spurningin er kannski fyrst þessi: Vill hlutafélagið Spölur semja við ríkið um yfirtöku þess á göngunum og með hvaða kostum vill hlutafélagið semja við ríkið? Hvað er í pípunum varðandi það? Þarna eru inni hluthafar eins og Grundartangahöfn, Sementsverksmiðjan, Járnblendifélagið og sveitarfélög sem væntanlega hafa gert einhverja arðsemisútreikninga og kröfur við það þegar þeir lögðu stofnfé í félagið og gera sjálfsagt einhverjar óskir eða kröfur áfram á rentu af því fé sem þarna var inn lagt. Um þetta veit ég ekki og það hefur ekkert í rauninni komið fram annað en þá það að menn gefi sér að einkahlutafélagið vilji semja við ríkið um yfirtöku á þessu mikla og góða mannvirki.

Hér hefur umræðan verið mjög fróðleg og farið mjög vítt um völl. Ég bendi á að þegar ríkisvaldið samþykkti að fara í þetta gríðarlega mannvirki lágu þær forsendur til grundvallar að gera það með þeim hætti að þarna yrði innheimt veggjald. Með þeim hætti var þessu mannvirki örugglega skotið inn á samgönguáætlun eða vegáætlun ríkisins. Hinn kosturinn í stöðunni var sá sá að fara með þetta mannvirki eins og flestar aðrar framkvæmdir á vegum landsins, að koma því á vegáætlun og bíða síðan eftir því með mikilli þolinmæði að röðin kæmi að því verkefni sem maður hefur óskir um að komist til verka. Ég geri ráð fyrir því að með þessu lagi sem viðhaft hefur verið við Hvalfjarðargöngin þá höfum við séð þetta mannvirki komast fyrr í not en ella hefði verið. Í það minnsta höfum við þá hugsun uppi í félaginu Greiðri leið fyrir norðan sem hefur verið að vinna og undirbúa gerð Vaðlaheiðarganga. Grunnforsendan fyrir því verki hefur alla tíð verið sú af hálfu þeirra sem það eiga og eru hluthafar að veggjald yrði innheimt af þeirri framkvæmd. Ástæðan er einföld, þ.e. að búa til aukið fé til samgöngubóta, koma fleiri verkum á og það kom ágætlega fram hér í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar áðan að það eru gríðarlegir fjármunir til samgöngumála á fjárlögum íslenska ríkisins árið 2008, á bilinu 25–30 milljarðar. Það eru gríðarlegar tölur. Hér erum við að tala um, eins og hefur komið fram í máli hv. þingmanna, fjárhæð á bilinu 4,5–5 milljarða kr. sem félli á ríkissjóðinn til greiðslu ef af samningum yrði um yfirtöku ríkisins á einkahlutafélaginu Speli. Við hljótum að sjálfsögðu að spyrja okkur: Getum við gert eitthvað annað fyrir það fé ef við eigum að hverfa frá þessari grunnhugsun? Getum við það? Er það kostur? Ég ætla að nefna eitt dæmi sem hefur verið í umræðunni og er verkefni sem margir einstaklingar binda þær vonir við að það sé hægt að búa til hátt í 50 þúsund manna markaðssvæði með betri tengingu. Það vill svo til að sú framkvæmd er áætluð kosta 4–5 milljarða. Þetta er vegur yfir Kjöl sem tengir saman Norður- og Suðurland og skapar þar með þá stöðu að um 20 þúsund manna markaðssvæði á Suðurlandi tengist með miklu skemmri og betri hætti 30 þúsund manna markaðssvæði norðan fjalla. Þetta hlýtur að vera kostur í stöðunni að ræða þegar við er um að tala um hvort við eigum að taka yfir á ríkissjóðinn verkefni sem kostar hann 4–5 milljarða kr. Þetta ber að ræða.

Við höfum líka þá stöðu uppi og það verklag eftir því sem ég þekki til — er þó tiltölulega nýr í þessum sölum — að vegafé er skipt eftir kjördæmum. Eru þingmenn Norðvesturkjördæmis að tala um að taka það fé sem hér um ræðir, 4–5 milljarða í heildina eða 275–300 milljónir á ári, út úr því vegafé sem annars væri í það kjördæmi? Það hefur ekki komið fram en þingmenn annarra kjördæma hljóta þá að kalla eftir afstöðu þeirra til þess hvernig þeir vilja vinna í framhaldinu.

Ég vil nefna það varðandi gjaldtökuna af umferð um Hvalfjarðargöngin að ég hef upplýsingar um að lægsta veggjald fyrir stærstu bíla í Hvalfjarðargöngin er um 2.222 kr. án virðisaukaskatts ef 40 ferðir á bíl eru keyptar í einu. Miðað við 25 tonna farm eru þetta 89 kr. á tonn á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Ef við horfum á þetta heila veginn þá væri hægt að lækka kostnaðinn á tonninu um 1% ef ekkert veggjald væri í Hvalfjarðargöngin. En ef við horfum á það sem ég nefndi áðan varðandi Kjalveginn að bara á milli Akureyrar og Reykjavíkur gæti verið um það að ræða að lækka kostnað á hvert tonn um 8%. Það sjá allir sem vilja sjá það að við hljótum að gera kröfu um að skoða þetta verkefni því þetta er stórt mál. Í mínum huga er þetta gríðarlega stórt mál vegna þess að forsendan fyrir því að í þetta verk var ráðist var sú aðferð sem höfð hefur við að fjármagna það og ef við ætlum að breyta því hljótum við að þurfa að horfa til annarra verka.

Hér voru nefnd af hv. þingmanni sem kom upp á undan mér áðan önnur samgöngutæki sem eru ferjurnar. Við horfum á Vestmannaeyjar. Við horfum á Grímsey og við horfum á Hrísey sem hafa ekki einu sinni vegasamband. Þetta er þjóðvegur þeirra um sjó og við getum örugglega fundið einhver fleiri slík dæmi sem við þurfum að ræða í tengslum við þetta. En í mínum huga er það grundvallaratriði að það verði ekki horfið frá þessu máli frá því sem upp var lagt og við höldum því til streitu að halda áfram með sama hætti því ég vil einnig halda þessum möguleika opnum áfram, þ.e. taka gjald fyrir samgöngumannvirki og notkun þeirra. Ég vil halda honum áfram opnum því ef það verður horfið til baka frá þessu þá lít ég svo á að yfirgnæfandi líkur séu á því að þessir fjármögnunarleið verði ekki framar notuð við samgönguframkvæmdir og ég vil ekki sjá þennan kost út af borðinu.