135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[15:45]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Hér hefur farið fram ágætisumræða um það dagskráratriði sem liggur fyrir. Mig langar aðeins að koma inn í umræðuna og rifja upp að hluta til það sem hefur komið fram en það eru samgönguáætlanir sem við gerum annars vegar til fjögurra ára og hins vegar til tólf ára. Þessar áætlanir eru byggðar á þeim verkefnum sem brýnust eru á hverju svæði fyrir sig, hverju kjördæmi fyrir sig, þar á meðal er jarðgangaáætlun sem samþykkt er sem hluti af heildaráætlun. Að sjálfsögðu reyna þingmenn hvers kjördæmis að ná sem mestu inn til síns svæðis, til þess að samgöngubætur verði sem mestar á þeim svæðum og það er bara eðlilegt og það mun verða svo áfram.

Nú háttar þannig til að þeirri tilteknu framkvæmd sem hér um ræðir, Hvalfjarðargöngum, var ekki forgangsraðað eins og öðrum framkvæmdum í landinu heldur var verkið unnið í einkaframkvæmd. Það var fyrirtækið Spölur, sem er afskaplega snjallt fyrirtæki, sem vann verkið. Sú framkvæmd hefur án efa skilað miklu fyrir svæðið sem göngin þjóna, bæði sunnan og norðan Hvalfjarðarganga.

Ég kem hér upp, frú forseti, m.a. til að spyrja hv. framsögumann um fjármögnunina ef um yfirtöku yrði að ræða. Ég fékk í raun svar við því í andsvari sem var á þá leið að væntanlega yrði þetta tekið af sérstakri fjármögnun eins og aðrar stórframkvæmdir sem nú eru í samgönguáætlun en ekki af fjármögnun viðkomandi kjördæmis. (Gripið fram í: Þetta er ekki samgöngumál.) Að sjálfsögðu hlýtur þetta að vera samgöngumál. Mér finnst það ekki óeðlilegt að þarna kæmi til sérstök fjármögnun líkt og með tvöföldun á Vesturlandsvegi og á Suðurlandsvegi. Það er í samgönguáætlun merkt sem sérstök fjárveiting.

Það er annað sem mig langar að fara aðeins yfir en það er að á nokkrum stöðum á landinu eru tekin gjöld. Í Suðurkjördæmi eru t.d. ferjugjöldin með Herjólfi. Það er verið að ræða um framkvæmdir sem yrði raðað fyrr eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson kom inn á með Vaðlaheiðargöng. Framkvæmd eins og Kjalvegur kæmi fyrr í röð ef hann yrði fjármagnaður með gjaldtöku og ég tel það eðlilegt að við leitum í þann rann. Aðalerindi mitt í þessari umræðu varðar ekki beint þetta tiltekna mál, Hvalfjarðargöngin, en mig langar til að spyrja hv. framsögumann hvað hann álíti um trúverðugleika þess þegar lagt er af stað með framkvæmdir sem á að byggja fjármögnun með gjaldtöku en svo heykjast menn í miðri á og segja: Nú viljum við snúa til lands og fjármagna þetta með öðrum hætti.

Ég óttast svolítið að þetta geti orðið til þess að þessi farvegur, sem mér finnst ágætur, verði skemmdur, hann verði ekki trúverðugur og að það verði ekki hægt að fara sömu leið með Vaðlaheiðargöng, eða Kjalveg, eða aðrar leiðir, t.d. samgöngubætur við Vestmannaeyjar, hvort heldur um ferjur eða göng eða hvað um væri þar að ræða. Við getum líka fært okkur inn á aðra þætti sem hafa verið fjármagnaðir með einkaframkvæmd og farið aðeins út úr samgöngumálunum og spurt okkur t.d. um fjármögnun Tónlistarhússins eða fjármögnun Iðnskólans í Hafnarfirði. Sveitarfélögin hafa verið að fara í þann farveg að fjármagna framkvæmdir sínar með einkaframkvæmd og borga leigugjöld. Það er þessi þáttur sem ég vil fá fram í umræðunni. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hvað á að gera í þessu einstaka tilfelli sem eru Hvalfjarðargöng. Ég vil fá það út úr umræðunni að við áttum okkur á því hvað við ætlum að fara varðandi gjaldtökur, einkaframkvæmd og í þá veru og hvað það þýðir gagnvart trúverðugleikanum ef við snúum til baka.

Að lokum vil ég segja það, frú forseti, að ég er ekki í nokkrum vafa um að Hvalfjarðargöngin hafi verið gríðarleg samgöngubót fyrir landið allt og megi slíkar framkvæmdir verða sem víðast á landinu.