135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[15:51]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fjármögnunina og framkvæmdaröðun vegaframkvæmda þá vil ég segja að það er alger misskilningur hjá hv. þingmanni að hér sé um að ræða samgöngumál. Þetta frumvarp lýtur ekki að framkvæmdum í vegamálum. Það lýtur að því að ríkið yfirtaki skuld sem er á framkvæmd sem var lokið fyrir tíu eða ellefu árum árum, eða þar um bil. Þetta er byggðamál til að jafna stöðu Vesturlands gagnvart Suðurlandi og Suðurnesjum vegna mismununar sem ríkið sjálft hefur komið á vegna þess að það er að leggja milljarðatugi í fjórbreiða vegi, annars vegar til Suðurnesja og hins vegar til Suðurlands án þess að nokkurt gjald sé tekið af umferð sem um þá vegi fer en á sama tíma er tekið gjald á þriðju leiðinni út úr höfuðborginni. Það er það sem er verið að bregðast við. Það er verið að gera íbúa á Vesturlandi jafnsetta til að njóta byggðaþróunar og styrks höfuðborgarsvæðisins og íbúa á Suðurlandi, kjördæmi hv. þingmanns, og á Suðurnesjum.

Virðulegi forseti. Varðandi Vaðlaheiðargöng þá vil ég segja að Vaðlaheiðargöng verða aldrei reist fyrir veggjöld. Það er talað um það af hálfu þeirra sem eru að reyna að koma málinu áfram til þess að greiða fyrir því að stjórnvöld styðji málið en það verður aldrei, það vitum við hv. þingmenn báðir. Það er ekki þar með sagt að það eigi ekki að ráðast í Vaðlaheiðargöng, ég er á þeirri skoðun að það sé rétt að gera það og að ríkið eigi að gera það og muni þurfa að borga það allt og ég álít að menn eigi bara að viðurkenna það strax en ekki vera að reyna að halda öðru fram.