135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[15:59]
Hlusta

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Hér er í gangi athyglisverð umræða út frá því frumvarpi sem hér er til meðferðar, frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2007. Segja má að fram fari eins konar akademísk umræða um stefnu í samgöngumálum, um einkaframkvæmd og gjaldtöku af umferð, fremur en raunveruleg umræða um fjáraukalög. Árið 2007 er auðvitað liðið og kemur ekki aftur.

Varðandi það viðfangsefni að byggja upp samgöngukerfi okkar Íslendinga þá þurfum við, sem búum í dreifbýlu landi, að leggja mjög mikla fjármuni í uppbyggingu samgöngukerfisins. Við þurfum að vanda okkur mjög mikið og leggja okkur eftir því að finna bestu kosti við að byggja kerfið sem allra hraðast. Það er viðfangsefnið. Við samþykkjum á Alþingi samgönguáætlanir sem hafa að leiðarljósi að ná árangri hratt og nýta fjármunina sem allra best.

Hvað varðar Hvalfjarðargöngin, sem hafa verið til umræðu og spurninguna um það hver eigi að greiða kostnaðinn af byggingu þeirra, sem að vísu er búið að greiða að verulegu leyti, snýst spurningin um hvort ganga eigi til samninga við Spöl um að kaupa upp þessa eign, að ríkissjóður geri það.

Í fyrsta lagi fer ekkert á milli mála að Hvalfjarðargöngin sönnuðu strax gildi sitt og þau hafa haft geysilega mikil áhrif á byggðina bæði norðan og sunnan Hvalfjarðar. Fólk sem býr á höfuðborgarsvæðinu sækir vinnu upp á Grundartangasvæðið, upp á Akranes og á Borgarfjarðarsvæði. Fólk sem vinnur t.d. að rannsóknum og kennslu á Hvanneyri eða Bifröst býr á höfuðborgarsvæðinu og ekur daglega þar um hefði ekki gert það ef það hefði þurft að fara fyrir Hvalfjörð, þá löngu og erfiðu leið að vetri, t.d. eins og tíðarfarið er núna. Ég vil leggja á það áherslu að það eru ekki síður íbúar sunnan Hvalfjarðar sem hafa notið þessa mannvirkis en íbúarnir norðan fjarðar. Á þetta allt þarf að líta.

Ég var ekki kominn til þings þegar fyrstu línur voru lagðar um að leggja Hvalfjarðargöngin. Það var samgönguráðherra Steingrímur J. Sigfússon sem gekk til samninga við áhugamenn um að grafa jarðgöng, sem betur fer. Hann fékk samþykkta löggjöf á Alþingi um að ganga til slíkra samninga. (GÁ: Var hann ekki orðinn vinstri grænn þá?) Hann var vafalaust vinstri grænn, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, og hefur yfirleitt ekki hvarflað mikið frá þeirri stefnu sem hann tók ungur. Ég býst ekki við að hann hafi haft uppi aðrar grundvallarmeiningar þá en hann hefur í dag. Þarna var um að ræða mikla framsýni, bæði af hálfu forustumanna í þinginu og það var mikil samstaða um það í þinginu að fara þessa leið og ekki síður heimamönnum norðan Hvalfjarðar, þeim sem stýrðu járnblendifélaginu á Grundartanga, Sementsverksmiðjunni, bæjarfélögunum og höfnum. Þeir lögðu sig mjög eftir því að ná samkomulagi um að grafa göng á forsendum einkaframkvæmdar.

Það er nauðsynlegt að rifja upp að á þessum tíma þótti ýmsum mikil áhætta að grafa svo löng jarðgöng undir fjörðinn. Þá voru margir úrtölumenn. Skrifaðar voru lærðar greinar um það í blöð að þetta gengi ekki. Við þær aðstæður sem þá voru á fjármagnsmarkaði voru gerðir samningar sem gerðu ráð fyrir töluvert hárri ávöxtunakröfu og þeir sem lánuðu fjármuni í þetta verkefni gerðu miklar kröfur um endurgreiðsluöryggi og háa vexti. Hluthafarnir í Speli gerðu jafnframt töluvert mikla ávöxtunarkröfu og ríkið gekk til samninga um að tryggja með greiðslum úr ríkissjóði arðgreiðslur vegna Spalar. Þetta mál hefur margar hliðar og það er nauðsynlegt að skoða þær allar þegar rætt er um það á þeim nótum sem við gerum hér. En göngin voru grafin og þetta hefur allt gengið feiknarlega vel. Ýmsum okkar þótti gjaldið orðið hátt og ég stóð þá á þeim tíma sem samgönguráðherra í stríði um það. Ég taldi nauðsynlegt að endurfjármagna Spöl og lækka þannig vexti og fékk Ríkisendurskoðun til að taka það út. Niðurstaðan varð sú að stjórn Spalar gekk í það verkefni að endurfjármagna öll lánin, fá lægri vexti, hagstæðari endurgreiðslur og fyrir vikið var gjaldið lækkað verulega.

Á sama tíma unnum við í ríkisstjórn og á þinginu að samgönguáætlun. Áætlanir voru gerðar á sviði samgöngumála sem mörkuðu þá stefnu, og nú þurfa menn að taka eftir, af hálfu þáverandi stjórnarflokka að Spölur yrði áfram óáreittur af hálfu ríkisins og ekki gerð nein krafa um það sem fram kemur í þessu frumvarpi, að ganga til samninga við Spöl um að greiða upp lánin og standa í raun fyrir eignaupptöku, ef svo mætti setja, gegn fullu gjaldi fyrir félagið. Fyrrverandi ríkisstjórn markaði þá stefnu með samþykkt samgönguáætlunar að greiða ekki upp lán Spalar. Ég hef ekki orðið var við að það væri stefna núverandi ríkisstjórnar að gera það heldur. Hér eru línurnar því nokkuð klárar. Þær voru það hjá síðustu ríkisstjórn og ég sé ekki að það séu uppi áform um að breyta þeirri stefnu, að láta þetta verkefni ganga til enda.

Af minni hálfu hefur aldrei koma til greina að taka gjald af öðrum leggjum Vesturlandsvegar eða Suðurlandsvegar. Ég hafði uppi áform á sínum tíma um að það verkefni gæti farið í einkaframkvæmd án þess að það yrði gjaldhlið á Sundabraut eða Vesturlandsvegi eða veginum austur fyrir fjall. Ég taldi það koma til greina, og samgönguáætlun sem er enn í gildi gerir ráð fyrir þeim möguleika, að þarna yrði einkaframkvæmd með sérstakri fjármögnun án daglegrar gjaldtöku af umferðinni. Þetta er nauðsynlegt að rifja upp.

Hv. þm. Magnús Stefánsson minnti á að á sínum tíma var dreift til þingmanna nefndaráliti þar sem traustir og góðir einstaklingar fóru ofan í það með hvaða hætti væri skynsamlegt að standa að einkaframkvæmdum í samgöngumálum. Gegn því var alls ekki mælt, alls ekki. Kannski var það þess vegna að menn fóru fyrir norðan að huga að Vaðlaheiðargöngum. Þeir hafa allt til þessa dags, ég veit ekki til að það sé nokkur brestur í þeim áformum enda er gert ráð fyrir því í gildandi samgönguáætlun, reiknað með að gengið verði til samstarfs af hálfu ríkisins við hlutafélagið Greiða leið um að grafa jarðgöng, Vaðlaheiðargöng svokölluð, og taka þar gjald en ríkið sæi til að gjaldið yrði hóflegt með því að greiða hluta kostnaðar, svo sem við tengingar o.fl. Svona stendur þetta mál.

Ég held að út af fyrir sig sé ágætt að hér fari fram, eins og ég sagði áðan, akademísk umræða um þessa hluti. Við þurfum að velta þeim upp. En ég hef ekki heyrt af neinni stefnubreytingu í þeim málum þannig að við sem notum Hvalfjarðargöngin næstum daglega verðum áfram, sem betur fer, að njóta þeirrar fínu þjónustu sem þar er veitt og spara okkur aksturinn fyrir fjörð. Það væri ekki gæfulegt í þessu tíðarfari sem nú er að þurfa að fara fyrir fjörðinn en greiða samt gjaldið, ég tala ekki um ef menn þyrftu að gera það daglega.

Niðurstaða mín er sú að við eigum að horfa fram á við, finna næstu skrefin á þeirri vegferð að byggja upp samgöngukerfið hratt, vel og skynsamlega.