135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[16:09]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ja, miklir íhaldsmenn erum vér. Þetta er mjög merkileg yfirlýsing sem hv. þingmaður gaf. Hann hefur ekki heyrt af neinni stefnubreytingu. Í hverjum mánuði verður stefnubreyting af skynsemisástæðum. Það kemur upp ný staða í samfélaginu, breyttar forsendur og þá hugsum við skákina upp á nýtt, af einhverjum ástæðum.

Það hafa kennt mér ýmsir hagfræðingar að stundum sé hagkvæmt, ef maður hefur efni á því, að borga upp skuldir sínar, borga höfuðstólinn upp og vera skuldlaus. Getur það ekki verið hagkvæmt í þessu tilfelli um leið og það gæfi fjölda fólks allt aðrar aðstæður? Ég spyr hv. þingmann hvort hann geti ekki hugsað aðeins fram á veginn, tekið stefnubreytingu, verið vitrari í dag en hann var í gær. Það eru allt aðrar aðstæður í ríkissjóði.

Það liggur fyrir að margir telja að fara eigi í tvöföldun. Býst hv. þingmaður við því að Hvalfjarðargöngin verði tvöfölduð? Ég álít að langt sé þangað til menn ráðast í það. Margt annað gæti orðið til að greiða fyrir því að þess þurfi ekki. Lítur hv. þingmaður svo á að þegar það verði gert verði áfram 20 ára gjaldtaka hvað Hvalfjörðinn varðar? Ég vil bara spyrja að þessu.

Auðvitað tekur ríkisstjórn á hverjum tíma nýjar ákvarðanir. Hv. þingmaður var samgönguráðherra og hann varð að taka nýjar og nýjar ákvarðanir. Hann gerði það oft prýðilega, hugsaði málin út frá öðrum sjónarmiðum af því að ríkissjóður var öðruvísi staddur og hann náði árangri í starfi af því að hann þorði. En nú er hann orðinn eins og gamall vagnhestur, staður og vill ekkert hugsa upp á nýtt.