135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[16:16]
Hlusta

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það endar með því að ekkert gjald verður tekið í Hvalfjarðargöngunum. Það er í samræmi við samninga sem eru í gildi (Gripið fram í: Næsta verkefni.) og lög sem um það gilda.

Út af þessu með uppgreiðslu skulda þá skuldar ríkissjóður ekkert þarna. Ef ríkissjóður ætlar að ganga til samninga við Spöl þá þarf hann að taka það fé út úr sínu tekjuflæði. Hann væri ekki að borga niður eigin skuldir heldur að auka útgjöldin hjá ríkissjóði það árið. Þannig er bókhaldið. Ríkissjóður skuldar þetta ekki. Það er misskilningur.

Ég tel miklu skynsamlegra, ef við höfum milljarða afgangs, að nýta þá til annarra hluta, m.a. til að bæta samgöngukerfið. Ég tel að það væri miklu skynsamlegra að hraða tvöföldun Vesturlandsvegar. Koma til móts við þá sem nota þessa leið mest. Auka öryggið á þessari leið með því að taka ákvarðanir um það.

Ég skora á hv. þm. Guðna Ágústsson, formann Framsóknarflokksins, að ganga til samstarfs við okkur þingmenn Norðvesturkjördæmis um að setja meiri fjármuni úr ríkissjóði í vegasjóð til að tvöfalda Vesturlandsveginn, auka umferðaröryggið þar og koma þannig til móts við þá sem nota leiðina. Það væri hinn eðlilegi framgangsmáti við þessar aðstæður.

Ég trúi ekki öðru en að hv. þingmaður komi til móts við okkur, 1. flutningsmann þess frumvarps sem hér er til umræðu, hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, og gangi að því verki. Það þarf að gera núna. En að öðru leyti er ég ánægður með umræðuna því hún dregur fram (Forseti hringir.) mikilvæga þætti í aðkallandi verkefnum.