135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[16:40]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í ljósi þess sem hv. þingmaður sagði taka undir að mér finnst mikil óvissa og dulúð yfir málflutningi sjálfstæðismanna í umræðunni. Ég skal ekki trúa því fyrr en ég tek á að Sjálfstæðisflokknum detti í hug, við tvöföldun á veginum frá Reykjavík til Selfoss, að leggja þar á veggjald. Menn hafa verið með einhverjar einkaframkvæmdarhugmyndir en það væri mikið stílbrot ef á þessa leið að höfuðborginni yrði lagt veggjald. Það er langt síðan við lögðum niður veggjald á Reykjanesbrautinni. Það var í bernsku stórvegagerðar á Íslandi og horfið frá því.

Mér finnst að Sjálfstæðisflokkurinn skuldi okkur svör, eftir þessa umræðu, um hvað þeir eru að hugsa. Það hefur að vísu komið fram að menn hafa velt því fyrir sér með Vaðlaheiðargöng til að flýta þeirri framkvæmd. Ég tel hins vegar að hún sé það mikilvæg, ekki síst ef farið verður í stórframkvæmdir á Bakka, álver, þá sé framkvæmdin mikilvægur liður í að styrkja Norðurland.

Hins vegar hef ég sagt við þessa umræðu að mér finnst Kjalvegur koma til greina sem sérstakur vegur sem væri með gjaldi og undir stjórn ríkisins leyfður sem einkaframkvæmd.

Ég held að sjálfstæðismenn skuldi okkur svör eftir þessa umræðu. Hvað eru þeir að hugsa á Suðurlandsveginum austur fyrir fjall? Eitt er því miður ljóst en ég held að þessi óvissa sé farin að tefja framkvæmdir á þessari leið og gæti seinkað tvöföldun vegarins frá Reykjavík austur fyrir Selfoss.