135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[16:42]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að rétt sé að bæta tvennu við það sem fram kom í máli hv. þm. Guðna Ágústssonar, fyrir utan Suðurlandsveginn, sem ég ætla að deilur geti verið um.

Annars vegar finnst mér liggja nokkuð skýrt fyrir af hálfu Sjálfstæðisflokksins að hann gerir kröfu um að ef farin verði gangaleiðin í Sundabrautinni verði Reykjavíkurborg látin borga mismuninn.

Í öðru lagi finnst mér samhljóða málflutningur þingmannanna tveggja frá Sjálfstæðisflokknum varðandi veggjaldið í Hvalfjarðargöngum benda til þess að þeir séu að reyna að verjast gjaldtöku fyrir breikkunina á leiðinni til Borgarness með því að standa á gjaldtökunni í Hvalfjarðargöng og segja síðan sem svo að of mikið sé að hafa gjaldtöku tvisvar sinnum á þessari leið.

Þetta vildi ég að kæmi fram, virðulegi forseti, þannig að menn vissu af því hvaða ályktanir maður dregur af því sem fram kemur í umræðunni af hálfu stjórnarliða.