135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[16:44]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held reyndar að það sem hv. þingmaður sagði nú eigi ekki lengur við rök að styðjast. Sjálfstæðisflokkurinn, sem er valdaflokkur Íslands og búinn að ríkja hér stanslaust á 17 ár og lætur oft á tíðum eins og hann eigi allar koppagrundir, mun nú hafa skipt um skoðun. Nú er Reykjavíkurborg komin í þennan veika nýja meiri hluta og sjálfstæðismenn komnir til valda af veikum mætti. Þar með er ríkisstjórnin sáttari og lætur kannski borgina ekki gjalda fyrir það eins og hún gerir þegar félagshyggjustjórn er í borginni. Ég býst við því að meiri líkur séu á því að Sjálfstæðisflokkurinn sé tilbúinn að koma að Sundabrautinni og þess vegna jarðgangagerð í ljósi þess sem gerðist á dögunum þegar nýr meiri hluti var myndaður, er nýr borgarstjóri tók við. Það var eiginlega einstök pólitísk aðgerð og verður lengi í minnum haft sem gerðist í bakherbergjum stjórnmálanna þegar sá meiri hluti var myndaður.

Ég held að áhyggjur hv. þingmanns af því að Sjálfstæðisflokkurinn sé nú að hugsa um að Reykvíkingar borgi mismuninn vegna Sundabrautar og jarðganga sé ástæðulaus í ljósi þessara breytinga. Hins vegar kann þessi veiki meiri hluti í Reykjavík, sem stofnað var til með þessum óeðlilega hætti, að falla aftur á morgun.