135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[16:47]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst tvennt vanta inn í þessa umræðu sem hefur þó verið mjög ítarleg. Í fyrsta lagi hafa menn stungið upp á því að semja við hlutafélagið Spöl, sem er hlutafélag í einkaeigu, um að ríkið yfirtaki veggöng. Ég spyr hv. þingmann hvernig honum litist á — ég reikna með að hann eigi íbúð einhvers staðar — ef það kæmu fjáraukalög um að semja við hann um að yfirtaka íbúðina hans. Á hvaða verði vildi hann selja slíka íbúð þegar slík kvöð væri komin á fjármálaráðherra um að það skuli semja við hann? Það er náttúrlega ljóst að fjármálaráðherra væri í vonlausri stöðu til að semja við Spöl um að kaupa af honum eignir og skuldir. Hann yrði bara að ganga að því tilboði sem Spölur stillir upp.

Í öðru lagi voru þeir vextir sem þarna er um að ræða mjög háir af því að menn töldu mikla áhættu í þessum framkvæmdum á sínum tíma og vissu ekki hvernig væri að bora göng undir sjó. Vextirnir eru háir og ríkissjóður yrði að borga þá að fullu að sjálfsögðu. Hann yrði líka að borga arð til Spalar, sem hefur ekki verið lítill af því að framkvæmdin hefur reynst arðbærari en fyrr var talið.

Síðan vildi ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji slík útgjöld, þar sem ríkissjóður dælir peningum út úr ríkissjóði til einkaaðila, sem væntanlega hafa þá meira umleikis, ekki mjög þensluhvetjandi eins og önnur útgjöld ríkissjóðs.