135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[16:50]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst að þessu síðara. Hvernig dettur hv. þingmanni í hug að sá sem fær allt í einu milljarða geri ekkert við féð. Hvað gerir hann við þá, lífeyrissjóðir t.d.? Hvað skyldu menn gera við þá, frysta þá í frystigeymslu? Þetta er einkaaðili. Hann að sjálfsögðu lánar það aftur út þannig að peningarnir fara á fleygiferð í atvinnulífinu, í framkvæmdir hér og þar.

Þetta eru peningar sem færu út úr ríkissjóði inn í atvinnulífið. (GÁ: Það er ekkert víst.) Ekkert víst? Ég hef ekki séð einkaaðila enn þá, lífeyrissjóði eða aðra slíka fjármagnseigendur, láta peningana sína liggja vaxtalausa (Gripið fram í.) ofan í frysti eða undir koddanum.

Varðandi fyrra atriðið. Já, ég reikna með því að það yrði samið fljótt og vel enda er fjármálaráðherra í vonlausri samningsaðstöðu. Samkvæmt lögum á hann að semja. Hinn aðilinn getur sett upp hvaða verð sem er. (Gripið fram í.)