135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

fjáraukalög.

148. mál
[16:51]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ofmælt hjá hv. þm. Pétri Blöndal að fjármálaráðherra eigi að semja. Í frumvarpinu segir að honum sé heimilt að semja, þetta er heimildargrein. Auðvitað semur fjármálaráðherra ekki undir neinum þrýstingi og gengur ekki að neinum ofurkjörum. Það er alveg ljóst, virðulegi forseti.

Varðandi peningana þá þekki ég ekki alveg hvar þessar skuldir liggja. Ég held að þær liggi hjá erlendum aðilum. Reynist það rétt fara þeir út úr íslenska hagkerfinu. Ef ekki verða þeir inni í íslenska hagkerfinu eins og þeir eru það fyrir. Ég veit ekki til þess að peningarnir stoppi endilega inni í Seðlabankanum.

Ég veit ekki annað en að peningar, hvort sem þeir eru á reikningi í Seðlabankanum, í öðrum bönkum eða hjá ríkissjóði, séu einhvers staðar í vinnu. Ég held að það sé ekki rétt hjá hv. þingmanni að það að færa þá á milli reikninga innan lands breyti einhverju um áhrif af peningunum. Ef þau eru einhver tiltekin í dag þá verða þau hin sömu á annarri kennitölu.