135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

endurskoðun á skattamálum lögaðila.

169. mál
[17:15]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á skattamálum lögaðila, 169. mál sem borið fram af hv. þm. Ellerti B. Schram.

Mér finnst málið athyglisvert og greinargerðin ekki síður. Þar er farið yfir þessi mál og ýmsar upplýsingar koma fram, m.a. hefur hv. flutningsmaður málsins velt fyrir sér hvort niðurstöðurnar séu í samræmi við tilgang laganna. Þar er varpað upp mjög málefnalegum spurningum og eðlilegt að menn leiti svara við þeim og skýri málið. Það hefði verið fróðlegt að hafa hæstv. fjármálaráðherra við þessa umræðu ef hann hefði verið tilbúinn til að taka þátt í henni. Þetta er þannig mál og eflaust býr hann yfir upplýsingum sem gagnlegt væri að fá fram.

Það er svo, hæstv. forseti, að á síðustu árum hafa verið stofnuð mörg einkahlutafélög í ýmsum sveitarfélögum landsins. Eitthvað er það misjafnt eftir byggðarlögum en ég þekki dæmi þess að menn telji það nánast óhóflegt á einstaka stöðum hve mikið hefur verið stofnað af einkahlutafélögum um jafnvel einn mann sem starfar við eitthvað tiltekið. Sveitarfélögin hafa mikið fjallað um þetta á síðustu árum. Þau hafa haldið því fram að þau hafi orðið af töluvert miklum útsvarstekjum vegna þessarar þróunar. Það hefur hins vegar verið erfitt að meta það. Það hefur verið reynt en reynst erfitt að meta hvað um er að ræða en engu að síður held ég að það sé rétt hjá sveitarstjórnarmönnum að þessi þróun hafi að einhverju leyti haft áhrif á útsvarstekjur sveitarfélaga. Við vitum að í mörgum sveitarfélögum getur það skipt verulega miklu máli og menn hafa því áhyggjur af þessari þróun.

Ég tel eðlilegt og rétt að verða við þessari tillögu. Ég er ekki með það í kollinum hvenær lögum var breytt þannig að einkahlutafélög fóru að verða algeng. Ætli það hafi ekki verið einhvern tíma eftir 2000 ef ég man rétt (Gripið fram í: 2001.) eða 2001. Ég held að það sé eðlilegt og sjálfsagt að menn fari yfir þessi mál og meti hvernig þetta hefur komið út. Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. flutningsmanns Ellerts B. Schrams að líta til annarra þjóða til að læra af þeim um svona mál.

Ég vildi, hæstv. forseti, segja örfá orð um þetta mál sem mér finnst gott og tel eiga fullan rétt á sér. Ég leyfi mér að hvetja til að þessi tillaga nái fram að ganga og hæstv. fjármálaráðherra sjái til að farið verði ofan í saumana á þessum málum, ekki síst út frá sjónarhóli sveitarfélaga en kannski öllu fremur út frá því sem mér fannst rauður þráður í framsögu hv. þingmanns, þ.e. sanngirni og réttlæti í skattkerfinu. Ég styð þetta mál, styð að farið verði í þessa vinnu, að reynslan af þessu fyrirkomulagi verði metin og reynt að finna leiðir til að bæta úr, komist menn að þeirri niðurstöðu að það þurfi.