135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

endurskoðun á skattamálum lögaðila.

169. mál
[17:29]
Hlusta

Flm. (Ellert B. Schram) (Sf):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs í þeirri trú að ég sé að flytja lokaræðu þessarar umræðu en það má vera að það sé kannski ekki tímabært. Engu að síður vil ég þakka þeim sem tekið hafa til máls og tjáð sig um þetta mál fyrir þeirra hlut og jákvæðar athugasemdir að langmestu leyti.

Beint er til mín stórum spurningum um afstöðu hæstv. ríkisstjórnar til skattatillagna verkalýðshreyfingarinnar í yfirstandandi kjaraviðræðum. Spurt er um afstöðu stjórnarflokkanna eða Samfylkingarinnar til þess vandamáls sem hefur sprottið upp í kjölfarið á þeirri staðreynd að sveitarfélögin fá ekki fjármagnstekjuskatt og tekjur þeirra hafa rýrnað, a.m.k. hlutfallslega, miðað við það að fjármagnstekjuskattur er náttúrlega stærri þáttur í skattinnheimtu hins opinbera en áður.

Þessum spurningum er ég ekkert sérstaklega að blanda inn í þessa umræðu. Við vitum vel að afstaða ríkisstjórnarinnar til skattatillagna byggðist kannski á því að ekki var tímabært fyrir ríkisstjórnina að taka afstöðu til mála meðan annað var að mörgu leyti óútkljáð og er enn í viðræðum milli aðila vinnumarkaðarins. Ég útiloka út af fyrir sig ekki að tekið verði tillit til þessara tillagna að einhverju leyti þegar þar að kemur. En á þeim voru líka ákveðnir gallar sem sneru að jaðarsköttum sem okkur er öllum ljóst að er ekki endilega hagstætt fyrir launafólk. Þannig að á því máli eru margar hliðar og ekki tilefni til þess fyrir mig að fara að ræða það út í hörgul enda það mál ekki hér á dagskrá. Það sama má kannski segja um það viðfangsefni sem snýr að fjármagnstekjusköttum og hlutdeild sveitarfélaganna í rýrnandi hlutfalli af skattinnheimtunni almennt, það mál er að ég best veit í skoðun og niðurstöður munu væntanlega liggja fyrir áður en þessum vetri lýkur eða jafnvel fyrr.

Hv. þm. Pétur Blöndal talaði um neikvæðan tón í greinargerð með tillögunni, að það vanti margt. Ég viðurkenni fúslega að ekki er verið að taka þar almennt á skattamálum eða gera úttekt á því heildarregluverki. Tillagan snýr að ákveðnum þætti skattalöggjafarinnar. Hana þarf að skoða og skilja á þann veg, eina og sér. Ef eitthvað vantar inn í hana er ekki við neinn að sakast nema flutningsmanninn. Er þá hægt að bæta úr því með vinnu í efnahags- og skattanefnd þar sem við báðir sitjum, hv. þm. Pétur H. Blöndal og ég. Hann lýsir því yfir að hann hafi áhuga á að leggjast yfir tillöguna og ég er þakklátur fyrir það. Við getum þá væntanlega staðið saman að því að bæta um betur í þessum tillöguflutningi og reyna að draga fram þau atriði sem á skortir.

Kjarni þessa máls er mjög einfaldur. Búið er til nýtt kerfi og ný skattalöggjöf sem gerir Íslendingum kleift að stofna félagaform um lítinn eða mjög fámennan rekstur. Þarna getur verið um að ræða einstaklings- og fjölskyldufyrirtæki, eins, tveggja eða örfárra einstaklinga. Það er ljóst að Íslendingar hafa áttað sig á gildi þessa fyrirkomulags vegna þess að slíkum fyrirtækjum hefur fjölgað úr 4 þúsund fyrirtækjum árið 2001 eða þar um bil og upp í 25–26 þúsund nú síðast þegar skýrslur voru gefnar upp um það. Ég leyfi mér að fullyrða að þessi fjölgun hefur átt sér stað vegna þess að fólk hefur séð möguleikana á skattaívilnunum með því að stofna fyrirtæki af þessu tagi.

Það er auðvitað aðalatriðið í þessu máli og skattalöggjöfinni allri að hún sé gegnsæ, hún sé réttlát og ekki sé verið að gera upp á milli fólks eftir því hvernig það telur fram með teknískum hætti til þess að komast hjá því að borga sanngjarna og réttláta skatta. Ekki með því að svindla heldur með því að fara eftir löggjöf sem hefur þau áhrif og þær afleiðingar að fólk getur í rauninni ákveðið sjálft hvað það hefur í laun.

Það eru vísu til hjá fjármálaráðuneytinu reiknuð endurgjöld þar sem sett eru einhver lágmörk á það hvað fólk verður að skrá á sig sem beinar launatekjur en það er ekkert þak á því og í raun og veru ekkert gólf heldur. Þar eru bara skilgreindir ákveðnir flokkar eða störf sem falla undir ákveðnar upphæðir í laun, algjörlega án tillits til þess hver hagnaðurinn er svo af starfinu og fjölskyldufyrirtækinu eða einstaklingsfyrirtækinu sem stofnað var. Það virðist því vera þannig að fólk borgi minna í tekjuskatt en ella vegna þess að það hefur tækifæri til að skilgreina sjálft hvað eru launatekjur og hvað er arður. Tekjurnar eru þess vegna í lágmarki en arðurinn í hámarki og skatturinn samkvæmt því. Fullyrt er við mig af sérfróðum mönnum, ég get ekki annað en vitnað til þess, að áætlað tekjutap ríkissjóðs og eftir atvikum sveitarfélaganna sé ekki minna en einn milljarður á ári vegna þeirra ívilnana sem þessi löggjöf felur í sér.

Að gefnu tilefni vil ég ítreka að hér er ekki verið að tala um að hækka skattana eða breyta þessu fyrirkomulagi að öðru leyti en því að settar verði ítarlegri skilgreiningar um það hvers eðlis þau fyrirtæki séu sem falla undir þessa skattalöggjöf. Vitna ég þá til fordæmisins á Írlandi þar sem menn hafa sett sambærilega löggjöf en hafa hins vegar mismunandi skattaálagningu eftir tekjum og eftir eðli fyrirtækjanna og eru takmörk sett á það hvað menn geta komist upp með að ákveða sem tekjur sínar. Verið er að tala um, ég vitnaði í það í ræðu minni, Closed Companies og Open Companies, og ég held að það geti verið þess virði fyrir íslensk skattayfirvöld og íslensk stjórnvöld að kynna sér þetta fyrirkomulag, þetta skattakerfi, útfærslu þess á Írlandi og annars staðar þar sem það er fyrir hendi, og styrkja löggjöfina hér hjá okkur að þessu leyti, að skattar séu réttlátir og innheimtir með þeim hætti að enginn geti sakað aðra eða skattayfirvöld um það að misrétti sé viðvarandi samkvæmt lögum.