135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

yfirtaka ríkisins á Speli ehf. og niðurfelling veggjalds um Hvalfjarðargöng.

170. mál
[17:54]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta mál hefur verið rætt mikið í dag og farið yfir það og öll rök komið fram í því en þó er kannski eitt sem hefur orðið ljóst í umræðunni að menn eru á móti því, sérstaklega í Sjálfstæðisflokknum, að horfa til nýrra átta í þessu efni, eins og að ríkið felli niður gjaldtökuna af almenningi og geri samning við fyrirtækið um að yfirtaka eignir og skuldir eða leiti eftir því.

Því má velta fyrir sér af því að almenningur borgar af þessum lánum með ferðalögum sínum í gegnum göngin hvort ekki sé hugsanlegt að líta á þetta sem skatttöku af almenningi, fólki og fyrirtækjum fyrst og fremst, og að það lækkaði í rauninni skatta á almenning að fella niður þá sérstöku gjaldtöku sem Hvalfjarðargöngin búa við og ekkert annað svæði í landinu, að með því að fara í þetta verkefni væri fyrst og fremst verið að fella niður skatt af almenningi sem á þarna leið um og lækka skatta og gjöld á vörum og öðru. Ég vil spyrja hv. þingmann um viðhorf hans til þessa.