135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

yfirtaka ríkisins á Speli ehf. og niðurfelling veggjalds um Hvalfjarðargöng.

170. mál
[17:57]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Hann greinir þetta svipað og ég að í þessari gjaldtöku er fólginn skattur á fólk sem fer um þessi göng. Við höfum farið yfir það í öðru þingmáli að það mundi auðvitað hafa gríðarleg áhrif á Vesturland og allt norður í land og vestur um land ef gjöldin væru felld niður fyrir utan hitt sem ég hef margsagt í þessari umræðu að gjaldtakan er auðvitað einstök á hringveginum. Hún var tekin upp til að koma þessum framkvæmdum á í gríðarlegri kreppu á Íslandi, einni af þeim dekkri, þar sem ríkið var í miklum vandræðum, safnaði skuldum og var rekið með miklum halla og þá var þessi leið farin til að koma framkvæmdunum áfram.

Ég hef margfarið yfir það í dag að nú eru breyttir tímar, ríkissjóður er skuldlaus. Við framsóknarmenn unnum að því með Sjálfstæðisflokknum á 12 ára tímabili að efla atvinnulífið og lækka skuldir með þeim hætti að ríkissjóður skuldar ekki 300 milljarða eins og kannski hefði getað verið heldur er nánast skuldlaus og þess vegna eru allt aðrar aðstæður. Slík skattalækkun sem þarna yrði með því að fella þessi gjöld niður og greiða skuldirnar upp og yfirtaka eignirnar af hálfu ríkisins, hefði ekki nein þensluáhrif í samfélaginu heldur mundi hún lyfta byggðum og þeirri byggð á Íslandi sem hefur búið við minnstan hagvöxt, Norðvesturkjördæminu, hún mundi lyfta því kjördæmi verulega og vissulega hafa mikil áhrif á höfuðborgina einnig, því að margir fara sinn sunnudagsrúnt en fara síður þessa leið vegna gjaldsins. (Forseti hringir.) Og það gæti verið, hæstv. forseti, að sjálfstæðismenn færu að skilja málið ef það er sett í það samhengi að það sé skattalækkun.