135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

yfirtaka ríkisins á Speli ehf. og niðurfelling veggjalds um Hvalfjarðargöng.

170. mál
[18:02]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér stendur yfir framhald umræðu um gangagjald í Hvalfjarðargöngum, um mál á þingskjali 183 sem er sambærilegt mál og var til umræðu fyrr í dag, á þskj. 158. Þá lýsti ég í ítarlegu máli skoðun minni á því af hverju ætti að fella niður gangagjaldið. Ég ætla ekki að endurtaka þá ræðu. Uppsetning þessa máls er með öðrum hætti. Fyrra málið var um að fjáraukalög 2007 tækju yfir skuldir, eða heimild til að fara í samninga um að taka yfir skuldina hjá Speli og taka félagið yfir. Í þessu máli er reiknað með það deilist á árin fram undan, þ.e. aðferðin er önnur í þessari tillögu frá fjórum hv. þingmönnum Vinstri grænna.

Það ber að þakka að í þessari þingsályktunartillögu er vitnað í málflutning minn fyrir kosningar og rétt farið með. Mér var þetta mikið kappsmál af mörgum ástæðum, að gangagjaldið yrði lagt af. Ég ætla aðeins að ítreka það sem kom fram í umræðunni í dag og hefur ítrekað komið fram í umræðunni að í því felst enginn áfellisdómur yfir fjármögnuninni í upphafi og engin stefnumótun um að slík aðferð verði ekki notuð við vegaframkvæmdir í framtíðinni. Það verður að sjálfsögðu að skoða í hverju og einu tilfelli.

Strax fimm árum eftir að Hvalfjarðargöngin voru tekin í notkun 1998 sáu menn að þróun umferðar var með miklu hraðara móti en reiknað hafði verið með. Menn sáu fyrir sér að uppbyggingin á umferðarmannvirkjum annars staðar og uppbyggingin almennt í samgöngumálum væri með þeim hraða að þær forsendur sem menn gáfu sér áður, að borga veggjald í Hvalfjarðargöngum til 20 ára, væri ósanngjarnar. Þá flutti fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, þáverandi þingmaður Guðjón Guðmundsson, um þetta þingsályktunartillögu. Hann vakti athygli á breytingum sem orðið hefðu þá þegar, þ.e. fyrir fimm árum.

Við sjáum þetta enn betur núna þegar nálgast tíu ár síðan göngin voru opnuð, að eiginlega allar forsendur þess að vera með veggjald á einni leið af öllum hringnum á þjóðvegi 1 eru brostnar. Hafi komið til tals, í framhaldi af þessari framkvæmd, að beita þeirri aðferð við samgöngubætur almennt að nota veggjald við umtalsvert dýrar framkvæmdir þá hafa menn ekki gert það. Það hefur hvergi verið lagt á veggjald síðan og hefur þó verið farið í margar miklu kostnaðarsamari framkvæmdir eða með tvöfaldan kostnað á við Hvalfjarðargöng, sem voru í sjálfu sér alls ekki dýr framkvæmd á sínum tíma.

Ég vil aðeins ítreka að ég tel mikilvægt að skoða málið einmitt vegna þess að við viljum sjá verulegar samgöngubætur í landinu, vegna þess að gera á gríðarlega stórt átak í samgöngumálum. Fram undan eru stór verkefni við tvöföldun á vegum, Sundabraut og Vaðlaheiðargöng. Bolungarvíkurgöngin eru að fara í gang og nauðsynlegar og sjálfsagðar endurbætur á Vestfjörðum. Ekki ætla ég að flytja tillögu um að tekin verði veggjöld af neinum af þessum vegum.

Okkur ber sem þingmönnum skylda til að fara eftir samgönguáætlun. Menn þurfa að ræða hvernig eigi að fjármagna framkvæmdir, að hve miklu leyti núverandi skattar af bifreiðum og bensíngjöldum duga fyrir þeim framkvæmdum, að hve miklu leyti þarf að koma til viðbótarfjármagn og með hvaða hætti það verði lagt á. Ég er tilbúinn að taka þátt í þeirri umræðu og velta vöngum yfir heppilegustu leiðunum enda verði allrar sanngirni gætt þannig að gjaldtaka, hver sem hún verður, með bensíngjöldum, eftirlitsgjöldum, eftir því hvar menn nota vegi o.s.frv., fylgi almennri reglu fyrir alla landsmenn þar sem slíkt kæmi niður með líkum hætti.

Það hefur komið fram í umræðunni fyrr að gjaldtakan í Hvalfjarðargöngum er farin að hafa veruleg áhrif á uppbyggingu á þjónustu á Vesturlandi samanborið við Reykjanes og Suðurland. Það er mikið réttlætis- og byggðamál að þetta verði tekið upp. Bent hefur verið á að áhrifin eru ekki bara uppi á Akranesi eða á Vesturlandi heldur á Vestfjörðum og Norðvesturlandi, á svæðum sem hafa setið eftir hvað varðar uppbyggingu og hagvöxt. Það er því óeðlilegt að leggja skatta á þær ferðir fólks og flutninga út úr bænum.

Eitt hefur ekki mikið verið rætt en í rannsóknum sem gerðar voru kom fram að kannski væru víðtækustu áhrifin af gangagjaldinu í dag á ferðaþjónustu, dagsferðir eða styttri ferðir fólks út úr Reykjavík. Fólk velur fremur að fara ekki um göngin í sunnudagsbíltúr eða á einhverja einstaka atburði eða út að borða, fólk sem ekki er með afsláttarkort og verður þar með að borga 900 kr. hvora leið í gegnum göngin. Þetta gildir um íþróttaviðburði líka. Fólk hugsar sig gjarnan um þegar það velur sér hvert það fer. Það var mat þeirra sem skoðuðu þetta, m.a. Vífils Karlssonar, að kannski gætti áhrifanna hvað mest í þessu þegar kæmi að samkeppni við önnur svæði.

Fram undan er mikil uppbygging í samgöngum á Vesturlandi og raunar á Norðvesturlandi. Menn þurfa að horfa til þess hvernig tengja á Uxahryggi og Lundarreykjadal inn á þetta svæði. Menn þurfa að skoða ýmsa aðra möguleika. Allt þetta er hluti af því að byggja upp ferðaþjónustu á svæðinu og það væri góð byrjun ef menn legðu af gangagjaldið.

Það er engin ástæða til að vera að óttast að þessir fjórir milljarðar, sem þurfa ekkert að koma til greiðslu á einu ári, semja mætti um borgun sem nemur gangagjaldinu til Spalar eða með einhverjum öðrum hætti, þurfi að draga úr framkvæmdum annars staðar. Ég vildi a.m.k. gjarnan sjá hvaða gjaldtaka er nú þegar á umferð og að hve miklu leyti henni er skilað í umferðina aftur, þ.e. að hve miklu leyti við notum hana í aðrar greiðslur sem skattpeninga.

Það er ósk mín og einlæg von að Alþingi og ríkisvaldið fari yfir gjaldtöku af umferð og skoði hvort til þurfi sérstaka gjaldtöku og að í framhaldinu verði beitt sanngirni þannig að það bitni ekki fyrst og fremst á einu ákveðnu svæði.

Varðandi það hvort hægt sé að breyta samningum gagnvart Speli er ástæða til þess að ítreka að ríkið á sjálft tæp 30% í einkahlutafélaginu Speli. Þar til viðbótar koma Faxaflóahafnir með tæp 24% þannig að það er engin ástæða til að ætla annað — ég hef svo sem heyrt það frá aðilum sem þar eru innan húss — en að vel verði í það tekið ef ríkið vildi yfirtaka greiðslur vegna gangagjaldsins.