135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

aukið öryggi við framkvæmdir hins opinbera.

303. mál
[19:01]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Örstutt um þetta mál. Ég tek hjartanlega undir þetta mál og styð það eindregið. Ég tel að slys séu alltaf af hinu illa og það eigi ekki að líðast og ekki að þola að það verði slys. Við búum í landi sem er afskaplega harðbýlt og erfitt og þar eiga menn alveg sérstaklega að gæta að því að hafa alla burði uppi um að hindra að fólk lendi í slysum. Það eru ekki bara að þetta séu örlög þeirra sem verða fyrir slysum, oft líkamstjóni, örorku. Menn verða bundnir í hjólastól alla ævi. Svo eru það mannslát og svo framvegis. Þetta líka heilmikill skaði fyrir viðkomandi fyrirtæki, fjárhagstjón, en líka skaði fyrir ímynd fyrirtækisins og áhrif þess á aðra starfsmenn.

Það hefur sýnt sig að með mjög sterkri áherslu á öryggisvarnir og öryggi hafa menn náð — það kom einmitt fram eins og hv. þingmaður, frummælandi málsins benti á hjá Bechtel á Reyðarfirði — alveg ótrúlegum árangri í því að berjast gegn slysum. Ég held að það sé nokkuð sem við ættum að taka upp víðar. Það á ekki bara að gera kröfu um að leggja fram slysa- og atvinnusjúkdómatölfræði heldur einnig að geta um þær ráðstafanir sem menn hyggjast og ætla að gera til þess að koma í veg fyrir slys. Ég held að öll fyrirtæki í landinu ættu að stefna á núllslysatíðni.