135. löggjafarþing — 62. fundur,  7. feb. 2008.

aukið öryggi við framkvæmdir hins opinbera.

303. mál
[19:05]
Hlusta

Flm. (Ármann Kr. Ólafsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hér tóku til máls og studdu mál þetta. Hv. þm. Pétur Blöndal sagði að það ætti ekki að líða slys og ég get svo sannarlega tekið undir það. Svo sagði hann að þetta væri ekki bara spurning um örlög þeirra sem í slysum lenda heldur líka spurning um ímynd fyrirtækjanna og að fyrirtækin lentu í tjóni. Svo er náttúrlega það sem við getum allir verið sammála um og ég man ekki hvort ég kom nógu skýrt inn á hér í byrjun en það eru náttúrlega þeir fjölmörgu ættingjar og vinir sem tengjast þeim sem lenda í slíku tjóni. Ég undirstrika það enn og aftur að það skiptir þá engu máli hver slysatíðnin var eitthvert tímabil þar á undan. Það er alltaf jafnalvarlegt fyrir þessa aðila að lenda í slíkum hremmingum.

Þá tek ég heils hugar undir það — það er spurning auðvitað hversu langt maður gengur í þessa veru — en fyrirtæki eiga líka jafnframt um leið og þau leggja fram tölfræði um það hvernig þau hafa staðið sig í þessum efnum jafnframt að skilgreina og skýra frá því hvernig þau koma til með að fylgja því eftir að halda slysatíðni niðri, þ.e. fylgja eftir núllslysastefnu sem ríkið mundi þá hafa í sínum útboðsgögnum.

Ég tek líka undir það með hv. þm. Guðbjarti Hannessyni að ef menn merkja — sem mér finnst nú oft menn gera illa — en síðan taka ekki niður merkingar og merkingar eru orðnar marklausar þá er það auðvitað líka mjög alvarlegt mál. Það alveg klárt að það gengur ekki. Menn verða náttúrlega að virða þær umgengnisreglur við merkingar sem vera ber, þ.e. að setja upp merkingar þegar á þeim þarf að halda og taka þær að sjálfsögðu niður þegar ekki er verið að vinna viðkomandi verk.