135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum.

[15:04]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður er iðinn við kolann að spyrja um sama málefni dag eftir dag, liggur mér við að segja. Það liggur fyrir að stjórnarflokkarnir hafa ólíka stefnu varðandi Evrópusambandið og hugsanlega aðild Íslands að því. En um þetta er fjallað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Skýrsla Evrópunefndar verði grundvöllur nánari athugunar á því hvernig hagsmunum Íslendinga verði í framtíðinni best borgið gagnvart Evrópusambandinu.“

Evrópunefnd, sem hér er vitnað til, er nefnd sú með fulltrúum allra flokka sem lauk störfum fyrir tæplega ári undir forustu hæstv. dómsmálaráðherra.

Síðan segir einnig, með leyfi forseta:

„Komið verði á fót föstum samráðsvettvangi stjórnmálaflokka á Alþingi sem fylgist með þróun mála í Evrópu og leggi mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga. Nefndin hafi samráð við innlenda sérfræðinga og hagsmunaaðila eftir þörfum.“

Þessi nefnd er að hefja störf. Tilkynnt hefur verið um það hvernig forustu hennar verður háttað og leitað hefur verið tilnefninga í hana.

Hvort einstakir þingmenn tjái sig eins og hugur þeirra stendur til er auðvitað þeirra mál. Það er málfrelsi á Íslandi og íslenskir þingmenn hafi málfrelsi bæði innan lands og utan eins og við öll vitum og okkur er öllum kært. Það breytir ekki því að slíkur málflutningur hefur ekki áhrif á þá stefnu sem stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um og ég var að vitna til.