135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

kynning á stöðu þjóðarbúsins.

[15:08]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Veðrið úti fer að lagast og vetrarlægðirnar að grynnast þegar kemur fram á útmánuði þannig að við getum verið bjartsýn, vorið kemur. En það eru efnahagslægðirnar sem halda áfram að dýpka. Þær valda okkur og Íslendingum öllum miklum áhyggjum. Ég hef varað hæstv. forsætisráðherra við þeirri deyfð sem hefur ríkt í ríkisstjórninni, því átakaleysi að gangast ekki á hólm við hina háu vexti, við hina miklu þenslu, og við erum að sjá afleiðingarnar á heimilunum og í fyrirtækjunum.

Hæstv. forsætisráðherra veit eins og ég að þjóðarbú Íslendinga er samt sem áður á margan hátt mjög sterkt. Það býr við umræðu í viðskiptalöndum okkar sem er óásættanleg, um að hér sé allt í kaldakoli og allt að fara norður og niður, sem er auðvitað rangt. Ríkissjóður er hér um bil skuldlaus eftir síðustu ár. Við búum við eitt sterkasta lífeyrissjóðakerfi heimsins sem á líklega 17 hundruð milljarða í eignum. Ég hefði haldið að það væri mikilvægt fyrir ríkisstjórnina og Seðlabankann að gera það sama og gert var 2006, að fara í leiðangur til viðskiptalanda okkar til að vekja athygli á sterkri stöðu þjóðarbúsins. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort eitthvað sé áformað í þeim efnum, hvort ríkisstjórnin sé að undirbúa það að fara meðal viðskiptaþjóða okkar og kynna sterka stöðu þjóðarbúsins. Það er mikilvægt fyrir okkur öll að það takist að stöðva þensluna — úrvalsvísitalan hefur nú fallið úr 5.400 stigum í 4.800 stig. Þetta er alvarlegt mál, umræðan um Ísland erlendis.

Ég vil líka spyrja hæstv. forsætisráðherra: Kemur það kannski til greina við þessar aðstæður (Forseti hringir.) að stofna til þjóðstjórnar á Íslandi til að tryggja að farið verði í þessi mál af þeirri einurð sem ber að gera?