135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

kaupréttarsamningar.

[15:22]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft mjög athyglisverðu máli sem hefur verið í fréttum að undanförnu og t.d. nú í morgun þar sem fram kom að framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta ætlar í mál við stjórn Glitnis því að hann segir stjórnina hafa keypt hlutabréf af fyrrum forstjóra á yfirverði. Komu fram mjög harðar ásakanir um þetta mál af hálfu Vilhjálms Bjarnasonar í fjölmiðlum í gær og í morgun.

Af því tilefni fórum við í viðskiptaráðuneytinu í gegnum lögin um hlutafélög í morgun og þau eru að mínu mati mjög skýr. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með því hvernig málinu lyktar fyrir dómstólum, eins og nú hefur verið boðað af Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hönd hluthafa í Glitni, af því að lögin virðast taka af öll tvímæli hvað þetta varðar þar sem þau segja að félagsstjórn, framkvæmdastjóri og aðrir þeir er hafa heimild til að koma fram fyrir hönd félagsins megi ekki gera nokkrar þær ráðstafanir sem bersýnilega eru fallnar til þess að afla ákveðnum hluthöfum eða öðrum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað annarra hluthafa eða félagsins. Og því er bætt við að slíkar ákvarðanir séu ógildar vegna þess að þær brjóti í bága við lög eða félagasamþykktir.

Í 79. gr. hlutafélagalaganna er líka mjög afdráttarlaust tekið á þessu að mínu mati þar sem félagsstjórn í félagi skal samþykkja tiltekna starfskjarastefnu félagsins varðandi laun og aðrar greiðslur til forstjóra og annarra æðstu stjórnenda félagsins. Sú starfskjarastefna er tíunduð nokkuð ítarlega í lögunum og þar við bætt að hún sé bindandi fyrir félagsstjórnina og skuli borin upp á hluthafafundi.

Ég tel þegar allt er skoðað að hlutafélagalögin séu mjög skýr hvað varðar gerð kaupréttarsamninga og þeirra hluta sem nú eru mjög gagnrýndir í viðskiptalífinu og hafa verið á undanförnum árum og verður mjög fróðlegt að fylgjast (Forseti hringir.) með prófmáli Vilhjálms Bjarnasonar sem hann boðaði í gær.