135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

loftslagsmál.

[15:28]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég er almennt þeirrar skoðunar að Íslendingar eigi að sækja sinn hlut mjög fast en þeir eigi hins vegar að hlíta þeirri niðurstöðu sem verður á alþjóðavettvangi.

Ég tel að það sé fullkomlega eðlilegt að Samtök atvinnulífsins setji fram harðar kröfur fyrir sig og fyrir þau fyrirtæki sem þau eru að slást fyrir. Ég dreg hins vegar mjög í efa að gerð þessa samnings verði með þeim hætti að þar verði endilega inni það sem hv. þingmaður kallar ígildi íslenska ákvæðisins. Ég held að þróun þessara samninga sé með öðrum hætti en uppbygging núverandi samnings.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og menn sjá t.d. varðandi flug og reyndar aðrar greinar sem Evrópusambandið hefur verið að beita sér fyrir að því er losun gróðurhúsalofttegunda varðar, að við eigum eftir að sjá þennan samning, sem vonandi verður gerður með tilstuðlan sem flestra þjóða, þróast yfir í þá átt að þar verði það sem ég sagði einmitt í svari mínu við hv. þingmann um miðbik desember síðastliðinn, að menn muni setja upp ákveðna geira fyrir tiltekna atvinnuflokka, fyrirtækjaflokka. Það hefur komið fram alveg skýrt af hálfu Evrópusambandsins t.d. að þar eru uppi tvær mismunandi skoðanir á því. Ég rifja það upp að framkvæmdastjóri iðnaðarmála er þeirrar skoðunar að fyrirtækjaflokkar sem falla t.d. undir stáliðnaðinn, áliðnaðinn, framleiðslu á sementi og öðru slíku, eigi að vera utan allra kvóta. Aðrir framkvæmdastjórar innan Evrópusambandsins hafa ekki nákvæmlega þessa skoðun. (Gripið fram í.) Þetta dreg ég hér fram til að sýna á hvaða stigi þessir samningar eru.

Ef ég má, hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir, freista þess að svara spurningunni, þá er það þannig að umhverfisráðherra er formaður ráðherranefndarinnar sem fer með þetta mál og hún fer sömuleiðis með þetta mál fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar gagnvart öðrum þjóðum á þessu stigi málsins. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður hefði því kannski frekar átt að spyrja hana um þetta. En málið er statt á eðlilegu stigi.