135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

loftslagsmál.

[15:32]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það er einfaldlega þannig að 22. febrúar er sú dagsetning uppi þegar Íslendingar munu skila inn ákveðnum viðhorfum sínum og það kemur bara í ljós á þeim tíma hver þau viðhorf verða.

Ef það huggar hv. þingmann eitthvað hefði hún átt að hlusta grannt eftir orðum mínum áðan. Ég sagði hér: Í fyrsta lagi er það mín skoðun — hæstv. forsætisráðherra orðaði það einu sinni þannig að hann hefði persónulega skoðun á þessu máli. Ég hef persónulega skoðun á málinu og hún er þessi: Ég tel í fyrsta lagi að við eigum að hlíta niðurstöðunum þegar þessari lotu lýkur. En ég er í öðru lagi þeirrar skoðunar að Ísland eigi að sækja sína hagsmuni fast. Ef hv. þingmaður getur ekki lagt út frá því hvað ég á við, er ég einfaldlega að segja að við eigum að sækja fast þá hagsmuni sem við kunnum að eiga fólgna í samningaferlinu og beita öllum þeim rökum sem við höfum. Hv. þingmaður kann kannski sum þeirra, ég kann þau öll. (Gripið fram í.)

Hins vegar eigum við að hlíta niðurstöðunni þegar hún kemur, (Forseti hringir.) algjörlega. Það er mín skoðun. (Gripið fram í: Þetta var nú ansi loðið.)