135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[15:47]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp sem að uppistöðu til er lagabreytingar og uppröðun á lagaákvæðum í tengslum við innleiðingu tilskipunar á þessu sviði frá árinu 2005. Þessi ákvæði, sem hafa þann yfirlýsta tilgang að gæta stöðu neytenda sérstaklega, eru að sjálfsögðu að langmestu leyti góðra gjalda verð og ekkert nema gott um þau að segja. Hér er að vísu verið að endurraða ákvæðum sem hafa lengi verið í lögum og virðast þó a.m.k. fá að halda sér. Ég tek eftir því að þar eru m.a. á ferðinni ákvæði sem hafa lengi verið mér hugleikin og lúta að vernd barna og ungmenna gagnvart auglýsingum. Þau komu upphaflega inn í samkeppnislög upp úr 1990 þegar horfið var frá því ráði að setja sérstaka löggjöf á þessu sviði, sem ég hafði lengi talað fyrir og flutt tillögur um og reyndar fengið samþykkt á Alþingi að slík löggjöf yrði samin, en niðurstaðan varð sú að setja ákvæði inn í samkeppnislög sem voru að sjálfsögðu til bóta þó að þau væru tiltölulega einföld. Þeim ákvæðum hefur síðan verið lítillega breytt og bætt við þau sérstaklega að auglýsingar þar sem börn koma fram megi hvorki lýsa hættulegu atferli né hvetja til slíkra hluta og að taka beri tillit til og sýna varkárni gagnvart trúgirni barna og unglinga og þar fram eftir götunum. Þetta má kallast þokkalega fullnægjandi svo langt sem það nær þó að ég sé reyndar þeirrar skoðunar að enn sé á köflum pottur brotinn í þessum efnum. Menn lenda í því fari að beina auglýsingum með ósmekklegum og óviðeigandi hætti að börnum og reyna að gera út á trúgirni þeirra og reynsluleysi og nota jafnvel börnin sem millilið til að komast að foreldrunum með slíkum aðferðum. Tímasetning slíkra auglýsinga, þegar þær eru birtar á undan og eftir barnaefni í fjölmiðlum, er líka umhugsunarefni en það er önnur saga.

Ég tel að sérstaklega megi hrósa a.m.k. einu ákvæði sem snýr að samskiptum fyrirtækja og neytenda og það er að leggja ótvíræðar kvaðir á fyrirtæki sem lúta ekki aðeins að hvers kyns aðgerðum þeirra, hátterni, framsetningu og samskiptum í viðskiptum heldur líka aðgerðarleysi. Tilskipunin tekur bæði til athafna fyrirtækjanna sem slíkra gagnvart neytendum og eins til þess ef um vítavert eða refsivert athafnaleysi er að ræða af þeirra hálfu í sambandi við t.d. að upplýsa með réttum og trúverðugum hætti um það sem í boði er. Með öðrum orðum, það er líka hægt að brjóta af sér með þögninni, með leyndinni. Hér er tekið skýrt af skarið um að fyrirtæki geta gerst sek vegna slíkrar vanrækslu og neytendur hafa sinn rétt líka í þeim tilvikum. Þetta er með svipuðum hætti og það getur verið að aðgerðarleysi þar sem aðgerða er þörf og þar sem skyldur mæla fyrir um getur verið jafnsaknæmur verknaður og aðgerðir sem slíkar og það finnst mér mikilvægt.

En það er annað atriði þessa máls hins vegar sem ég er miklu uppteknari af og vil gera sérstaklega að umtalsefni. Það er eðli þessarar tilskipunar og það er eðli löggjafarinnar sem hér á að fara að setja ef frumvarpið verður afgreitt eins og það ber með sér. Það lýtur að því að tilskipunin mælir fyrir um það sem kallað er allsherjarsamræming á ákvæðum viðkomandi sviðs á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Hvað felur það í sér? Jú, það felur í sér að lög aðildarríkjanna mega hvorki ganga lengra né skemur en ákvæði tilskipunarinnar. Þarna er nokkurt nýmæli á ferð og ég þori svo sem ekki að taka af skarið með það hér eftir minni mínu en mér er nær að halda að við höfum ekki oft áður, eða ég vona satt best að segja ekki, staðið frammi fyrir innleiðingu tilskipunar af þessu tagi með þessu eðli sem sviptir aðildarríkin algerlega rétti til einhvers sjálfstæðis í formi þess að um ítarlegri ákvæði sé að ræða og gengið sé lengra í þágu þeirra sem í hlut eiga hverju sinni. Hér er með öðrum orðum horfið frá því eðli tilskipana og reglusetningar af því tagi sem oftast hefur verið að um lágmarksreglur sé að ræða. Þá verður mjög mikil eðlisbreyting á samskiptum einstakra aðildarríkja og stofnana samningsins og valdsins sem í hlut á. Þetta hefur það m.a. í för með sér, eins og áður segir, að ekki er um lágmarksákvæði að ræða og aðildarríkjum er því ekki lengur heimilt að setja ítarlegri eða strangari reglur um neytendavernd við innleiðingu þeirra en ákvæði tilskipunarinnar mæla fyrir um.

Allsherjarsamræming, eins og það er kallað, krefst þess einnig að ekki bara inntak ákvæðanna sé nákvæmlega það sama, hvorki meira né minna heldur, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu, að túlkun ákvæðanna sem innleiða ákvæði tilskipunarinnar verður að vera með sama hætti alls staðar á Evrópska efnahagssvæðinu, verður þar að horfa til dómafordæma dómstóls Evrópudómstólsins um túlkun tilskipunarinnar og reyndar er hnýtt aftan í og EFTA-dómstólsins fyrir EFTA-ríkin. Hér er verið að ganga mjög langt. Hvað mundu fjórmenningarnir segja, sem reiddir voru fram til þess á sínum tíma að fullvissa okkur um að afsalið, ekki síst á sviði dómstólanna, væri nægjanlega takmarkað og afmarkað til að það stæðist íslensku stjórnarskrána, þegar þeir standa frammi fyrir svona textum? Að tilskipunin er allsherjarsamræming og ekki eitt einasta orð má ganga hvorki lengra né skemur en inntakið segir. Okkur er bannað að tryggja stöðu neytenda með einhverjum hætti ítarlegar eða betur eða með ríkari fyrirmælum en tilskipunin kveður á um. Og túlkun ákvæðanna verður að vera samræmd og hver ræður þar ferðinni? Jú, Evrópudómstóllinn. Það vita það allir að þó að tveggja stoða kerfið sé að nafninu til við lýði í þeim skilningi að dæmi EFTA-dómstóllinn sem slíkur fyrir aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins þá eru það fordæmisgefandi dómar Evrópudómstólsins sem ráða. Er þarna ekki komið býsna langt út á gráa svæðið, ef ekki út af því og inn á svart? Það væri fróðlegt að heyra hvort hæstv. viðskiptaráðherra hefur eitthvað við okkur að segja í þessum efnum.

Þá vil ég spyrja: Var þessu mótmælt á sínum tíma af hálfu Íslands? Þetta er það ákvæði og þetta er sú tilhneiging sem sætt hefur t.d. hvað harðastri gagnrýni í Noregi. Norðmenn hafa almennt séð mótmælt því og andæft því, ef ég þekki rétt til, í hliðstæðum tilvikum ef uppi hafa verið, að samskiptin og inntak samningsins um Evrópska efnahagssvæðið væri þróað í þessa átt. Hörð átök urðu í Noregi á sínum tíma þegar verið var að ganga frá efnatilskipuninni svokölluðu, chemical directive REACH heitir það á útlendu máli, og hvers vegna var það? Það var vegna þess að það var ekki lágmarkstilskipun heldur var ætlunin að samræma þetta algerlega á öllu svæðinu, sem aftur þýddi að Norðmenn yrðu að fella niður og slaka á ýmsum kröfum sem fyrir voru í norskum lögum og reglum og áttu að tryggja norskum neytendum ríkari vernd en hin nýja tilskipun á þessu sviði gerði í þeim tilvikum t.d. að norskar reglur gengu mun framar væntanlegu inntaki tilskipunarinnar hvað varðaði litarefni í mat og annað í þeim dúr.

Nú beygðu Norðmenn sig að lokum í þessum efnum eða eru að gera það og það er eins og það er en mér finnst ástæða til að spyrja: Hver er hin almenna afstaða Íslands þegar svona hluti ber að? Er ekki sjálfgefið að við, út frá okkar hagsmunum, og til að reyna þó að halda því sem eftir er af hinu sjálfstæða fyrirkomulagi sem upphaflegri stöðu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið var ætlað að hafa gagnvart Evrópuréttinum að öðru leyti, mótmælum í tilvikum sem þessum að um allsherjarsamræmingu sé að ræða, að okkur sé ekki heimilt að grípa til og hafa í einhverjum tilvikum ákvæði sem ganga lengra, tryggja neytendum t.d. ríkari vernd ef okkur sýnist ástæða til? Segjum bara að við vildum hafa, á einhverjum sviðum sem lúta að samskiptum neytenda við fyrirtæki, ríkari verndunarákvæði en þarna er kveðið á um? Af hverju í ósköpunum skyldum við ekki mega það? Hvers vegna má það ekki vera? Þetta finnst mér vera í raun stórt umhugsunarefni í þessum efnum og ástæða til að spyrja hvernig menn ætla sér almennt séð að hegða sér í samskiptum af þessu tagi því að svo mikið er víst og nákvæmlega jafnöruggt og tvisvar tveir eru fjórir að þetta er kannski ekki í fyrsta en væntanlega í eitt af fyrstu skiptunum sem við stöndum frammi fyrir þessum hlutum og alveg örugglega ekki í síðustu skiptin. Í þessa átt vill auðvitað samrunamótorinn mikli í Brussel þróa alla skapaða hluti, í átt til allsherjarsamræmingar og helst takmarka niður í ekki neitt svigrúm einstakra aðildarríkja til að hafa þarna einhver ákvæði á öllum þeim sviðum sem samningarnir taka til, auðvitað sérstaklega á sviði samkeppnismarkaðarins og að hatast við öll frávik jafnvel þó þau séu í átt til ríkari réttar neytenda eða launamanna, eigum við að segja launamanna í tilviki sameiginlegra kjarasamninga Norðurlandanna, en evrópska regluverkið leyfir. Þetta minnir líka á samhengið sem evrópskur vinnuréttur eða norrænn vinnuréttur er í gagnvart Evrópudómstólnum eins og hann hefur t.d. núna fellt dóma í Vaxholm-málinu svonefnda.

Nú fer frumvarpið væntanlega til hv. viðskiptanefndar eins og efni þess mælir fyrir um en ég tel að það sé fullkomlega ástæða til að utanríkismálanefnd hugi líka að þessu máli og velti fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að einhverjar áherslur liggi fyrir og séu mótaðar af okkar hálfu í tilvikum sem þessum. Ég mundi vilja sjá að þær væru þær að við nánast hefðum það alveg innbyggt í þátttöku okkar og aðkomu okkar að málum á forstigum að við reyndum að vinna gegn ákvæðum af þessu tagi, reyndum að tryggja að í öllum tilvikum væri innleiðing á grundvelli lágmarksákvæða, um væri að ræða lágmarkstilskipanir og valdið til þess að ganga lengra í þeim tilvikum sem okkur sýndist svo væri alltaf til staðar. Þetta eru ákaflega miklir þvingunarskilmálar ef menn neyðast til að undirgangast þessa hluti á öllum sviðum og þá fyrst fer að verða lítið eftir til að ákveða á Alþingi Íslendinga ef þetta á að verða formúlan í öllum tilvikum. Takið þið þetta eða hafnið þið þessu nákvæmlega svona og þið megið ekki setja reglur sem ganga skemur eða lengra. Þá fer að verða lítið eftir, er það ekki, til að hafa einhverja sjálfstæða löggjöf á sviði neytendaverndar eða samkeppnisreglna hér ef þetta ættu að verða okkar örlög í öllum tilvikum.

En það væri mjög fróðlegt að vita hvort hæstv. ráðherra hefur einhverjar upplýsingar um og þekkir forsöguna og veit hvernig var tekið á móti þessu af Íslands hálfu á sínum tíma, hvort tilraunir voru gerðar til að fá þessu breytt eða hafa þetta ekki svona eða hvort menn sváfu þá hluti alla saman af sér.