135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[16:23]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka viðskiptaráðherra fyrir þau svör og ábendingar sem hann kom með hér í sínu máli og þakka honum að sjálfsögðu góð orð í minn garð. Það var nú einhvern tíma sagt að stjórnarandstaðan þurfi að vara sig þegar ráðherra hrósi einstökum þingmönnum í stjórnarandstöðu þannig að ég mun taka það til sérstakrar athugunar.

Varðandi það sem hæstv. ráðherra sagði um þá ólögmætu — sem sagt þá viðskiptahætti sem ætti að ákveða með reglugerð, þ.e. sem teljast ávallt óréttmætir þá geri ég mér grein fyrir því að til eru ákveðnar vísireglur eins og ég talaði um. Hæstv. ráðherra talaði um svartan lista. Maður gerir sér grein fyrir því líka að á sviði viðskiptalífsins er mikill hraði, miklar breytingar og það verður að vera hægt að bregðast við. Það skiptir hins vegar máli að ekki sé farið of langt í að veita heimildir til þess að framkvæmdarvaldið hafi með löggjafarvaldið að gera.

Varðandi kostunina og börn og unglinga sem hæstv. ráðherra minntist á vil ég bara nota tækifærið til að þakka honum fyrir að hafa haft frumkvæði að því að leita til háskólastofnana til þess að gera úttekt á þessum málum. Það var mál til komið að ráðherra neytendamála á Íslandi hefði verulegt frumkvæði í neytendamálum.