135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[16:24]
Hlusta

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér um ræðir fjallar einkum um vernd fjárhagslegra hagsmuna neytenda og virðist ekki um mjög miklar breytingar að ræða frá gildandi lögum eins og fram kom í framsögu hæstv. viðskiptaráðherra.

Lög og reglur sem snúa að neytendamálum þurfa að vera skiljanlegar bæði fyrir neytendur og seljendur vöru og þjónustu. Hér er fjallað um með hvaða hætti vörur og þjónusta skuli auglýst þannig að um blekkingar gagnvart neytendum sé ekki að ræða. Ég held að það hljóti að teljast til bóta fyrir íslenska neytendur, en mörg dæmi eru um að á slíkum reglum hafi þurft að halda hér á landi í samskiptum neytenda og stórfyrirtækja þar sem erfitt hefur verið fyrir neytandann að hafa nægilega yfirsýn yfir þau atriði sem skipta máli í samskiptum þar sem hluti af kostnaði hefur ekki verið tilgreindur í auglýsingu.

Hins vegar þarf einnig að gæta að því að reglur séu ekki of stýrandi fyrir markaðinn. Það má ekki beinlínis ætla fyrirtækjum að þau ætli sér að blekkja eða svíkja neytendur. Flest fyrirtæki reyna að koma vel fram við neytendur. Það eru hagsmunir þeirra að viðskiptavinurinn sé ánægður með fyrirtækið og þjónustuna sem það veiti. En reglur sem settar eru þurfa í öllum tilvikum að vera skýrar.

Hér er einnig fjallað um auglýsingar gagnvart börnum og skal sýna sérstaka varkárni í auglýsingum með það í huga hvaða áhrif þær geta haft á börn. Þetta er mjög skynsamleg nálgun og eðlilegt er að gæta varkárni þegar kemur að markaðsstarfi og auglýsingum sem miðast að börnum. Auglýsendur ættu alltaf að hafa í huga að börn geta séð og heyrt auglýsingar þeirra þó að þeim sé ekki beint sérstaklega að þeim og gera þær þannig úr garði að börnum og unglingum sé ekki misboðið.

Hér er fyrst og fremst verið að innleiða, eins og fram hefur komið, formbreytingar á lögum út af þessari tilskipun ESB. Ekki virðist sem um verulegar efnisbreytingar sé að ræða en breytingar sem koma neytendum til góða eru alltaf til bóta og ég tel að um það sé að ræða í þessu frumvarpi.