135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[16:45]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hægt að taka undir margt af því sem fram kom í máli hv. þingmanns og formanns utanríkisnefndar Alþingis. Í umræðunni um Evrópuskýrsluna í dag var töluvert rætt um svokallaðan lýðræðishalla við lagagjörð og innleiðingu tilskipana frá Evrópusambandinu. Það blasir við, hvort sem við köllum það framsal á lagasetningarvaldi eða fullveldi, að þetta var mál sem margir sneru blinda auganu að á sínum tíma þegar við gerðum EES-samninginn.

Nú keppast flestir við að lofsyngja afleiðingarnar af samningnum, efnahagslegar, á sviði verslunarfrelsis og markaðsaðgangs og það er örugglega meira og minna hárrétt. Hann hefur skilað okkur miklum umbótum og auðæfum í formi verslunarfrelsis og markaðsaðgangs og annarra hluta.

En það sem eftir sat við gerð samningsins var lýðræðishallinn, ónóg aðkoma löggjafans, okkar á Alþingi að lagagjörðinni hjá Evrópusambandinu. Það var eitt af því sem þeir sem vildu ganga alla leið, ganga í sambandið, héldu fram, að það væri miklu varfærnari leið hvað varðaði afsal á fullveldi og aðkomu að lagasetningu Evrópuþingsins en samningurinn. Það má færa ýmis rök fyrir því að við höfum minni lýðræðislega aðkomu og samningurinn sé meira fullveldisframsal en innganga í sambandið sjálft. Það er sjálfsagt eitt af því sem Evrópunefndin sem hér er rætt um á eftir að fara yfir og margir aðrir í framtíðinni.

En hv. þingmaður varpaði upp spurningunni: Hvaða leiða getum við leitað til að efla lýðræðislega aðkomu Alþingis að þessu málum? Það er stóra spurningin núna. Það er viðfangsefnið að bæta verulega úr því. Hv. þingmaður hefur varpað ýmsum ágætum kostum fram hvað það varðar og væri athyglisvert að fá hann til til að skilgreina þá aðeins nánar.