135. löggjafarþing — 63. fundur,  11. feb. 2008.

eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

362. mál
[16:50]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir hvert orð sem þingmaðurinn sagði hvað þetta varðar. Það er mikið áhyggjuefni, og hefur verið innan Evrópusambandsins um árabil, hve sambandið hefur á margan hátt fjarlægst borgara landanna. Þetta tók stakkaskiptum þegar sambandið stækkaði og varð samstarf mjög margra fullvalda ríkja. Auðvitað gjörbreyttist strúktúr sambandsins eftir það.

Vitanlega felst alltaf einhvers konar lýðræðishalli eða fullveldisframsal í samstarfi ríkja með þessum hætti. Það er á hreinu að ríkin framselja hluta af lagasetningarvaldi sínu og fullveldi í þetta samstarf sem aftur á móti má segja að sé samstarf fullvalda ríkja sem geta gengið úr því ef yfir þau er gengið, ef þau telja hagsmunum sínum betur borgið þannig.

Umræðan um hvort EES-samningurinn eða full aðild hafi í för með sér meiri lýðræðishalla eða meira afsal á fullveldi skiptir svo sem ekki öllu máli. Stóra spurningin er, eins og þingmaðurinn nefndi, hvaða leiða við getum leitað til að efla lýðræðislega aðkomu okkar að málum. Ef við gefum okkur að við munum búa við núverandi ástand um hríð er nauðsynlegt að bæta þar verulega úr af því að samningurinn hefur skilað okkur mörgu öðru jákvæðu. Þetta er ein af neikvæðu hliðunum.

Um leið má geta þess að Evrópusambandið er að breyta verulega fyrirkomulagi sínu og Evrópuþingið mun hafa miklu meiri áhrif og völd en áður. Í gegnum tíðina var það meira og minna málfundarsamkoma. Nú er það að þróast í átt að raunverulegri löggjafarsamkomu en áður. Það veit þingmaðurinn jafn vel og ég. Það kemur skýrt fram í samtölum á fundum okkar við kommissara í Evrópusambandinu núna. Það eru að verða stakkaskipti á þessum málum þar, sem betur fer fyrir okkur öll.